Uppgjör Svansins 2020
Uppgjör Svansins fyrir árið 2020 liggur nú fyrir. Rekstur umhverfismerkisins Svansins er á ábyrgð Umhverfisstofnunar og er styrkt af ríkissjóð í gegnum fjárframlög til stofnunarinnar. Á árinu 2020 var veltan 34 milljónir króna og komu tekjurnar aðallega frá umsóknargjöldum íslenskra fyrirtækja annars vegar (10,3 m. kr.) og hins vegar frá árgjöldum íslenskra leyfishafa (10 m.kr.). Miðað við gjaldaliði er áætlað að verkefnið hafi verið styrkt um 8,9 m. kr. úr ríkissjóði.
Stærsti tekjuliðurinn eru laun starfsfólks Svansins, en síðustu ár hafa verið áætluð um 1,8 stöðugildi í verkefnið, eða um 22,3 m. kr. Rúmlega 5 m. kr. fara í rekstrar- og tölvukostnað. Gerð markaðsefnis og birtingar á efni voru um 4,5 m. kr. á árinu og innan þess einnig birtingar á kynningarefni um umhverfismerki almennt. Markaðsefni og birtingar miða að því að auka þekkingu á Svaninum og fyrir hvað hann stendur, en einnig að auka þekkingu neytenda almennt á umhverfismerkjum sem sjá má á íslenskum markaði. Tæplega 1 milljón króna var varið í ráðgjöf vegna viðmiða Svansins fyrir nýbyggingar, svo sem vegna þróunar á séríslenskum orkuviðmiðum. Á árinu 2020 var unnið áfram að sérverkefni sem snýr að efnum í umhverfi barna og styrkt var af Norrænu ráðherranefndinni á formennskuári Íslands árið 2019. Síðasta greiðslan og síðustu verkefnin voru unnin árið 2020.
Umhverfismerkið Svanurinn hefur leitast við að birta uppgjör fyrir síðustu ár á heimasíðu merkisins til að auka gagnsæi og til að leyfishafar og aðrir haghafar geti nálgast upplýsingar um fjármögnun merkisins og nýtingu þessa fjármagns.