Harpa hlýtur Svansvottun sem ráðstefnuhús
Þann 7. desember síðastliðinn afhenti Guðlaugur Þór umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra Hörpunni Svansleyfi fyrir ráðstefnuþjónustu.
Elva Rakel framkvæmdastjóri Norræna umhverfismerkisins Svansins á Íslandi sagði við afhendinguna:
„Við höfðum áður verið í nánu samstarfi við starfsfólk Hörpu vegna verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri þegar við fengum umsókn frá þeim um Svansvottun. Því var búið að taka viss skref í átt að umhverfisvænni rekstri áður en vottunarferli Svansins hófst. Umsóknin var vel skipulögð og var mikill einhugur hjá starfsfólki að klára ferlið hratt og örugglega. Það er virkilega ánægjulegt að vottunin sé nú í höfn og að ríkisaðilar hafi aukna möguleika til að versla við Svansvottuð ráðstefnurými á Íslandi.“
Við tilefnið sagði Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpunnar:
„Harpa tekur virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar og Svansvottunin skiptir miklu máli á þeirri vegferð. Á hverju ári eru haldnar mörg hundruð ráðstefnur, fundir, veislur og fagsýningar í Hörpu þar sem gestir skipta tugum þúsunda og koma hvaðanæva að úr heiminum. Viðskiptavinir Hörpu geta nálgast skýrslur um kolefnisfótspor einstaka viðburða og stendur þeim jafnframt til boða að kolefnisbinda áhrifin. Með Svansvottuninni styrkir Harpa enn frekar stöðu sína og samkeppnishæfni sem ráðstefnuhús á heimsmælikvarða“.
Við óskum Hörpunni innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga!
Frá vinstri: Hulda Kristín Magnúsdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Hörpu, Rakel Lárusdóttir, sérfræðingur á fasteigna- og umhverfissviði Hörpu, Elva Rakel Jónsdóttir framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi og Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu