fbpx
3. apríl 2025

ARKÍS hljóta Svansvottun fyrir endurbætur á skrifstofuhúsnæði þeirra

ARKÍS arkitektar hafa nú fengið sitt fyrsta Svansleyfi fyrir endurbætur á eigin skrifstofuhúsnæði. Um er að ræða skrifstofuaðstöðu í Kópavogi sem hefur verið endurnýjuð í samræmi við endurbótaviðmið Svansins þar sem lögð er áhersla á umhverfið og heilnæma innivist.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ARKÍS kemur að verkefni sem tengist Svansvottun – fyrirtækið hefur áður hannað byggingar sem ýmist eru í Svansvottunarferli eða hafa nú þegar hlotið Svansvottun og býr því yfir dýrmætri reynslu af vottunarkerfinu.

„Þegar við fórum í þetta ferli að gera upp nýjar skrifstofur ARKÍS ákváðum við strax að þær skyldu vera Svansvottaðar til að sýna fordæmi og fara eftir því sem við leiðbeinum öðrum að gera. Einnig sáum við tækifæri í að skapa starfsfólkinu okkar góða innivist og vinnuaðstöðu sem styður við heilsu og vellíðan “ segir Þorvarður Lárus Björgvinsson einn af eigendum ARKÍS.

Í Svansvottunarferlinu er lögð sérstök áhersla á að bæta innivist og loftgæði en meðal annars voru loftgæðamælingar framkvæmdar ásamt því að notast var við vélrænt loftræsikerfi ásamt öðrum lausnum sem stuðla að heilsusamlegra vinnuumhverfi. Einnig er lögð áhersla á að takmarka skaðleg efni í byggingarvörum og efnum ásamt því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með ýmsum aðgerðum.

„Með því að endurnýta byggingarefni og vinna í anda hringrásarhagkerfisins má draga úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins, hér gegna arkitektar og hönnuðir lykilhlutverki með því að  koma auga á byggingarefni sem hægt er að endurnota eða endurnýta og skoða möguleika á að velja endurbætur fram yfir niðurrif og skapa þannig verðmæti úr því sem fyrir er.“ segir Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins.

ARKÍS arkitektar sýna hér fordæmi með því að velja þessa leið, bæði til að skapa betra vinnuumhverfi en einnig til að setja tóninn hvað varðar umhverfismál í byggingariðnaðinum.

Við óskum þeim innilega til hamingju með þennan áfanga og hlökkum til að vinna frekar með þeim í framtíðinni.

Fleiri fréttir