fbpx
19. mars 2018

​Héraðsskólinn fær vottun Svansins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, veitti Héraðsskólanum á Laugarvatni Svansleyfi við hátíðlega athöfn 16. mars síðastliðinn. Í Héraðsskólanum er rekið gistiheimili með litlu veitingahúsi og ráðstefnurými og eiga eigendur að mati Neytendateymis

Umhverfisstofnunar hrós skilið fyrir umhverfisáherslur sem hafðar eru að leiðarljósi í rekstrinum.

Ferðaþjónustan er stærsti iðnaður landsins og er gríðarlega mikilvægt að fyrirtæki sem starfa innan geirans sýni ábyrgð og leggi sitt að mörkum til að lágmarka það umhverfisálag sem fylgir ferðaþjónustunni. „Ábyrg ferðaþjónusta má ekki bara snúast um yfirlýsingar og stefnumótun, heldur þurfa ferðaþjónustufyrirtækin að fara heildstætt yfir reksturinn og þora að fara í breytingar sé þess þörf. Þetta hefur Héraðsskólinn gert með prýði,“ segir Neytendateymi Umhverfisstofnunar.

Til að hljóta vottun Svansins þarf að sýna fram á lágmörkun á orkunotkun og úrgangsmagni auk þess sem stór hluti rekstrarvöru þarf að vera vottaður af viðurkenndum umhverfismerkjum. Einnig leggur Svanurinn áherslu á að boðið sé upp á lífrænar vörur og matvæli úr héraði. Þetta er 38. leyfið á Íslandi og það þrettánda í flokki hótela, veitingastaða og ráðstefnurýma.
Umhverfisstofnun óskar Héraðsskólanum innilega til hamingju með árangurinn og hlakkar til samstarfsins næstu árin.

Á myndinni eru (frá vinstri) Birgitta Stefánsdóttir, starfsmaður Svansins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, Elísabet Björney Lárusdóttir, umhverfisráðgjafi, Sverrir Steinn Sverrisson, eigandi Héraðsskólans og Guðrún Lilja Kristinsdóttir, starfsmaður Svansins.

Fleiri fréttir