fbpx
8. febrúar 2017

Ásprent-Stíll fær Svansvottun

Ásprent-Stíll hlaut 3. febrúar síðastliðinn vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Viðurkenningin er staðfesting þess að Ásprent hefur lágmarkað neikvæð umhverfisáhrif fyrirtækisins.

Ásprent-Stíll er gamalgróið norðlenskt fyrirtæki sem rekur sögu sína aftur til 1901. Innan félagsins eru vikublöðin Vikudagur og Skarpi prentuð, auk Dagskrárinnar fyrir Akureyri og Skráarinnar fyrir Húsavík. Ásprent-Stíll er 35. fyrirtækið sem hlýtur Svansvottun og það fyrsta á Akureyri.

Umhverfisstofnun óskar Ásprenti til hamingju með þennan árangur.

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur:

95% efna til prentunar eða hreinsunar véla þurfa að vera umhverfismerktar eða sambærilegar
Ekki má nota efni sem eru hættuleg umhverfinu eða heilsu manna
Meðhöndlun efnaúrgangs þarf að vera ábyrg og almenn flokkun skýr
Mikil áhersla er lögð á að lágmarka úrgangsmyndum og afskurð
Í það minnsta 90% af þyngd Svansmerkts prentgrips skal vera umhverfismerktur pappír eða sambærilegur.
Norræna umhverfismerkið Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta 65 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.

Fleiri fréttir