Svanurinn er heimsfrægur
Svanurinn er eitt af tíu þekktustu umhverfismerkjum heims. Þetta sýnir ný skýrsla „Reviewing the Adoption of Ecolabels by Firms” (2012) frá alþjóðlega viðskiptaháskólanum IMD í Sviss. Í viðamikilli könnun voru lagðar spurningar fyrir stjórnendur fyrirtækja frá sjötíu löndum.
Svanurinn og Evrópublómið eru bæði meðal þeirra tíu merkja sem voru oftast nefnd þegar þátttakendur voru beðnir um að nefna umhverfismerki. Svanurinn, ásamt Bláa englinum frá Þýskalandi, voru nefnd sem fyrirmynd annarra merkja og viðmið þeirra þóttu hafa mest áhrif á opinber útboð. Þetta sýna ítarleg viðtöl ásamt vefkönnun (1052 svör) sem IMD tók saman.
„Svanurinn verið á miklu flugi undanfarin ár og þekking landsmanna á Svaninum hefur aukist jafnt og þétt. Íslensk fyrirtæki hafa í Svaninum séð tækifæri til að taka þátt í grænu hagkerfi og leyfishöfum hefur fjölgað ört. Þar sem Svanurinn er norrænt umhverfismerki er sérstaklega ánægjulegt að þessi rannsókn varpar ljósi á hvað Svanurinn hefur sterka stöðu á heimsvísu. Íslensk fyrirtæki hafa afbragðs tækifæri til þess að nota Svaninn við alþjóðlega markaðssetningu á umhverfisvænni vöru eða þjónustu,” segir forstjóri Umhverfisstofnunar Kristín Linda Árnadóttir.
„Það er jafnframt mjög jákvætt að rannsóknin sýnir að fyrirtæki ættu að einbeita sér að umhverfismerkjum sem taka tillit til alls lífsferilsins, líkt og Svanurinn gerir. Í dag eru mörg merki sem einungis einbeita sér að einstökum þætti, svo sem orkunotkun. Það getur verið villandi fyrir neytendur, því þótt góður árangur hafi náðst í til að mynda orkumálum þá segir það ekkert um árangur á öðrum sviðum sem snerta umhverfi eða heilsu,” segir Kristín Linda.
Áskoranir framtíðarinnar fyrir umhverfismerkin gagnvart neytendum og fyrirtækjum eru felast, samkvæmt skýrslu IMD, í því að:
- Kynna betur þann sparnað og hagræðingu sem hlotist getur af vottun
- Leggja meiri áherslu á þá vídd vottunar sem snertir heilnæmi
Samantekt á niðurstöðum rannsóknarinnar (einnig hægt að leggja inn pöntun fyrir skýrslunni í heild).