Svanurinn tryggir betra vinnuumhverfi og heilmæmara húsnæði

Við spurðum Gylfa Gíslason, framkvæmdarstjóra Jáverk og Sigrúnu Melax, gæða-, öryggis- og umhverfisstjóra Jáverk út í þeirra reynslu á Svansvottun bygginga.
Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar vöru/þjónustu?
Umhverfisáhrif bygginga og byggingaframkvæmda eru alveg gríðarleg og okkur langaði til að minnka umhverfisáhrif af okkar verkefnum. Þar sem við erum ekki sérfræðingar í umhverfismálum þá vildum við fylgja því sem sérfræðingar í þessum málum hafa lagt fram og þá eru vottunarkerfin augljósa leiðin. Eftir að hafa skoðað það sem í boði var þá leist okkur best á Svansvottun af ýmsum ástæðum en að okkar mati er Svansvottun einn besti formlegi gæðastimpill sem til er á íslenskum byggingarmakaði í dag. Það sem við erum hvað hrifnust af varðandi Svansvottunina er að fyrir utan það að huga að minni umhverfisáhrifum þá eru stífar kröfur varðandi gæði húsnæðisins og heilnæmi fyrir notendur.
Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?
Það eru mörg atriði sem skila ávinningi en helst ber að nefna minni eiturefna notkun sem skilar sér í betri vinnuaðstæðum fyrir starfsmenn á verkstað, heilnæmara húsnæði fyrir íbúa og notendur og minni umhverfisáhrifum. Lægri orkunotkun húsnæðisins, áhersla á gæði og rakavarnir, heilnæmara inniloft, áhersla á dagsbirtu og hljóðvist og minna kolefnisspor eru dæmi um ávinning af svansvottun.
Með notkun steypu með lægra hlutfalli af sementi minnkar losun vegna sementsframleiðslu um 30-35% en okkur reiknast til að í miðbæ Selfoss hafi „sparast“ um 170 tonn af kolefnisígildum miðað við hefðbundna steypu sem samsvarar árslosun uþb 50 fólksbíla. Að sama skapi erum við að áætla að í þeim Svansvottuðu verkefnum sem nú eru í gangi hjá okkur muni „sparast“ yfir 2.000 tonn af kolefnisígildum.
Ávinningurinn fyrir okkur er að íbúðirnar munu fá Svansstimpil, sem staðfestir að kröfum hafi verið framfylgt en mikilvægt er fyrir neytendur að eitthvað sé á bakvið yfirlýsingar um „umhverfisvænar“ eða „vistvænar“ vörur.
Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?
Já svo sannarlega. Fyrir utan það að Svansvottunin skili betri vöru þá erum við að minnka umhverfisáhrif og auka við þekkingu okkar á umhverfismálum. Þekkingin sem hefur skapast af því að fara í gegnum Svansvottunarferlið smitast yfir í önnur verkefni.
Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?
Við þurfum að halda vel á spöðunum ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem þurfa að nást í umhverfismálum á næstu árum og við treystum því að sérfræðingar Svansins auki kröfurnar jafnt og þétt í samræmi við það hvernig markaðurinn bregst við. Við getum ekki borðað fílinn í einum bita, við þurfum að taka þetta í skrefum og Svansvottun ásamt öðrum vottunarkerfum eru mjög mikilvægur hlekkur í því að draga markaðinn áfram í rétta átt þannig að það sem við erum að gera í dag verði normið og setja okkur ný viðmið sem við þurfum að ná.