fbpx
10. nóvember 2017

Fyrsta Svansvottaða húsið á Íslandi

Mannverk ehf hefur fyrst íslenskra fyrirtækja hlotið vottun norræna umhverfismerkisins Svansins fyrir einbýlishús að Brekkugötu 2, Garðabæ. Umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, veitir viðurkenningu af þessu tilefni í dag. Svanurinn er hluti af verkefnum Umhverfisstofnunar.

Fyrsta svansvottaða einbýlishús Íslands er steypt og einangrað að utan með íslenskri steinull. Það er klætt með álklæðningu og að hluta búið viðarklæðningu. Húsið stendur í Urriðaholti sem er fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities). Eigendur eru Finnur Sveinsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir. Þau segjast lengi hafa átt þann draum að reisa sér vistvænt hús. Neytendateymi Umhverfisstofnunar telur að með þessu skrefi hafi verið brotið blað sem sé til mikillar fyrirmyndar.

Viðmið fyrir Svansvottaðar byggingar eru umfangsmikil og taka til margra ólíkra þátta sem eiga að stuðla að betri gæðum fyrir umhverfi og heilsu þeirra sem nota bygginguna. Það eru því strangar kröfur varðandi efnanotkun, val á byggingarefni og innivist. Á Norðurlöndunum hefur Svansvottun bygginga átt mikilli velgengni að fagna þar sem Svanurinn býður upp á skilvirkt vottunarkerfi sem sýnir fram á umhverfislegan ávinning. Því er vottun dagsins mikilvægt skref sem mun eflaust reynast hvati fyrir fleiri íslensk byggingarfyrirtæki, samkvæmt upplýsingum frá neytendateymi Umhverfisstofnunar.

Svansmerkið byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.

Mikilvægt er að koma þeim skilaboðum til neytenda að val okkar allra skiptir máli. Hægt er að velja vörur sem hafa slæm áhrif á umhverfið eða vörur þar sem neikvæð áhrif hafa verið minnkuð til muna.

(Mynd: Mannverk)

Fleiri fréttir