fbpx
11. október 2024

Alverk hlýtur Svansvottun fyrir hagkvæmt húsnæði ætlað fyrstu kaupendum

Í dag hlaut Alverk sitt fyrsta Svansleyfi fyrir alls þrjú fjölbýlishús með samanlagt 52 íbúðum. Íbúðirnar eru hluti af verkefni Reykjavíkurborgar um hagkvæmt húsnæði sem ætlað er fyrstu kaupendum og kaupendum undir 40 ára. Um þær gilda því ákveðnir skilmálar og kvaðir er varðar verðlagningu og endursölu.

Alverk er byggingaraðili og jafnframt leyfishafi, einnig sáu þeir um utanumhald Svansvottunarinnar og er vert að nefna að virkilega vel var að þeirri vinnu staðið. Urðarsel er þróunaraðili og seljandi íbúðanna og settu þeir fram ákvæði um að íbúðirnar yrðu Svansvottaðar þegar sótt var um að byggja á lóðinni. Með Svansvottuninni er náð markmiðum í mismunandi umhverfisþáttum, en einnig fæst með vottuninni ákveðinn gæðastimpill sem staðfestir að uppfylltar hafi verið kröfur um góða innivist, skaðleg efni í byggingarvörum, rakaforvarnir og fleira.

Það er mikill vöxtur í Svansvottun bygginga og sífellt að bætast við Svansvottaðar íbúðir á markaði. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann fjölbreytileika sem bætist við með þessu verkefni. „Ekki er einungis um að ræða íbúðir fyrir stærri fjölskyldur eða fjársterka aðila heldur eru þarna komnar Svansvottaðar íbúðir á markaðinn sem eru sniðnar að yngra fólki og fyrstu kaupendum“ segir Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins á Íslandi.

Fleiri fréttir