fbpx
15. janúar 2019

AÞ-þrif standast endurvottun Svansins

Föstudaginn 11.janúar s.l. afhenti Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri á Umhverfisstofnun, ræstiþjónustunni AÞ-þrif endurnýjað leyfi Svansins fyrir almennar ræstingar. AÞ-þrif tók til starfa árið 2006 og hefur verið vottað af Svaninum síðan 2010.

AÞ-þrif á sérstakt hrós skilið fyrir litla efnanotkun og gott skipulag í kringum þjálfun starfsfólks. Svanurinn krefst þess að fyrirtæki séu með verkferill í kringum þjálfun til að tryggja að starfsfólk fari rétt með efnavöru og fylgi kröfum Svansins. Þjálfun er einnig mikilvægur liður í að tryggja gott vinnuumhverfi og öryggi á vinnustað.

Þegar viðmið Svansins eru endurnýjuð eru kröfurnar hertar, til dæmis minnkar magn efna sem fyrirtækið má nota til þrifa á hverjum fermetra, strangari kröfur eru settar á hlutfall umhverfisvottaðra efna og leyfisleg eldsneytisnotkun bílaflotans fyrir hvern ræstan fermetra minnkar svo eitthvað sé nefnt. Til að Svanurinn haldi áfram að vera áreiðanlegt merki sem vottar árangur í umhverfismálum er nauðsynlegt að kröfurnar fari í gegnum reglulega endurskoðun og fylgi þróun á markaðnum.
Umhverfisstofnun óskar AÞ-þrifum til hamingju með áfangann og hlakkar til áframhaldandi samstarfs.
Á myndinni taka Arnar Þorsteinsson framkvæmdastjóri og Hrund Sigurðardóttir skrifstofustjóri við leyfinu úr hendi Elvu Rakel Jónsdóttur, sviðsstjóra á sviði loftslagsmála og græns samfélags.

Fleiri fréttir