fbpx
9. september 2022

Efnasprotafyrirtækið Gefn fær Svansleyfi !

Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins á Íslandi og Ásgeir Ívarsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Gefn. 

Efnasprotafyrirtækið Gefn fékk afhent Svansleyfi í tveimur vöruflokkum við hátíðlega athöfn í dag. Um er að ræða fyrstu íslensku Svansvottunina í flokknum viðhaldsvörur fyrir farartæki en einnig fær fyrirtækið vottun í vöruflokknum hreinsiefni og fituleysir fyrir iðnað.

Gefn er íslenskt sprotafyrirtæki sem þróar tækni sem umbreytir úrgangi og útblæstri í umhverfisvæna efnavöru. Fyrirtækið mun á næstunni hefja framleiðslu á umhverfis- og heilsuvænum hreinsiefnum í samstarfi við valda aðila. Við framleiðslu hreinsiefnanna eru notuð innlend hráefni unnin úr úrgangi. Kolefnisspor hráefnanna er þannig haldið í lágmarki og geta þau komið í stað varasamra efna sem alla jafna eru unnin úr jarðefnaeldsneyti, eins og t.d. terpentínu og annara rokgjarna lífrænna leysiefna.

Elva Rakel framkvæmdastjóri Norræna umhverfismerkisins Svansins á Íslandi sagði við afhendinguna:

Það gleður okkur mjög að sjá íslenskt nýsköpunarfyrirtæki í efnaiðnaði setja umhverfismál í forgrunn. Gefn hefur meðal annars gert það með því að hafa kröfur Svansins til hliðsjónar frá upphafi vöruþróunar sem skilar sér í því að nú eru fyrstu vörurnar sem fyrirtækið setur á markað tilbúnar með Svansvottun frá fyrsta degi. Ég hef trú á að fyrirtækið muni blómstra í því samfélagsástandi sem nú er farið að kalla í auknum mæli eftir umhverfisvænni kostum.“

Hugmyndafræði Svansins snýst um að gera kröfur til uppruna og eðli hráefna, framleiðsluaðferðir, vinnu- og gæðaferla og möguleika til endurnýtingar eða -vinnslu. Kröfurnar eiga að tryggja að Svansvottaðar vörur hafi sem minnst áhrif á heilsu fólks og umhverfi. Með því að breyta úrgangi í hráefni tekst Gefn að setja fordæmi fyrir innlenda framleiðslu sem byggir á grunnhugmyndum hringrásarhagkerfisins. Gefn stígur þannig í takt við heildræna nálgun Svansins þar sem allur lífsferill vöru er skoðaður frá vöggu til vöggu.

Ásgeir Ívarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Gefnar segir að Svansleyfin séu mikilvægur áfangi sem staðfesti að Gefn sé á réttri leið með þær tæknilausnir sem fyrirtækið vinni að.

Efnin sem fyrirtækið hefur þróað, og hafa nú hlotið Svansvottun, er ætlað að leysa af hólmi heilsuspillandi og mengandi efni sem nú eru notuð víða í iðnaði, fyrirtækjarekstri og jafnvel af einstaklingum. Um er að ræða einstaka vöru á Íslandi en einnig á alþjóðlegum markaði þar sem full þörf er á sambærilegum vörum og Gefn þróar um þessar mundir“ segir Ásgeir ennfremur.

Við óskum Gefn innilega til hamingju með þennan áfanga og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Fleiri fréttir