fbpx
7. febrúar 2024

Eignaþrif hlýtur Svansvottun

Frá vinstri: Ester Alda H. Bragadóttir, starfsmaður Svansins, Sólbjört Jóhannesdóttir verkefnastjóri Eignaþrifa, Tereza Carbolová starfsmanna- og verkefnastjóri Eignaþrifa, Rún Pétursdóttir og Kjartan Freyr Kjartansson eigendur Eignaþrifa.

Eignaþrif fékk afhent Svansleyfi fyrir almennar ræstingar þann 31. janúar síðastliðinn, og er þar með tíunda íslenska ræstingafyrirtækið sem hlýtur Svansvottun. Eignaþrif, sem stofnað var árið 2019, hefur unnið hörðum höndum að vottuninni síðastu misseri og var afrekinu fagnað með verðskulduðum kræsingum.

Fyrirtækið notar nánast einungis vottuð efni við daglegar ræstingar og er lágmarkað það magn efna sem notuð eru við þrif sem er til fyrirmyndar. Þar að auki hefur fyrirtækið tekið skref til að verða enn umhverfisvænni, þ.á.m. að kaupa inn einungis umhverfisvottaðar tuskur og minnka plastnotkun.

Í viðmiðum Svansins fyrir ræstiþjónustur er lögð áhersla á bæði umhverfi og heilsu starfsfólks, enda getur mikil efnanotkun fylgt ræstingum. Með því að nota í auknum mæli umhverfisvottuð efni til ræstinga er notkun á skaðlegum efnum haldið í algjöru lágmarki þar sem mörg efni sem eru algeng í ræstivörum eru bönnuð í umhverfisvottuðum vörum. Þetta á til dæmis við um efni sem geta verið hormónaraskandi, ofnæmis- og krabbameinsvaldandi. Vottun Svansins nær einnig til fleiri þátta eins og þjálfun starfsfólks og innkaupaferla fyrirtækisins sem styður við forsendur vottunarinnar. Það þarf því að horfa til margra þátta til að hljóta Svansvottun, enda er Svanurinn lífsferilsmerki sem skoðar heildstætt það sem vottað er.

Við óskum Eignaþrifum innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum við til áframhaldandi samstarfs.

Fleiri fréttir