fbpx
17. mars 2025

Elín Þórólfsdóttir nýr formaður Umhverfismerkisráðs

Nýverið tók Elín Þórólfsdóttir við sem formaður Umhverfismerkisráðs.

Elín hefur starfað sem teymisstjóri á sviði Mannvirkja og sjálfbærni hjá Húsnæðis og Mannvirkjastofnun (HMS) frá árinu 2024. Þar hefur hún m.a. leitt samstarfsvettvanginn Byggjum grænni framtíð (BGF), sem stuðlar að innleiðingu aðgerða samkvæmt Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð. Svansvottun bygginga er á mikilli uppleið í Svaninum og er nú stærsti viðmiðaflokkurinn hér á landi og er því mikil samleið á milli verkefnisins Byggjum Grænni framtíð og Svansins ásamt því að fulltrúar Svansins sitja í verkefnastjórn BGF.

Til viðbótar situr Elín í stjórn Grænni byggðar og tekur ríkan þátt í starfi sínu hjá HMS í norrænu samstarfi; Nordic Sustainable Construction. Hún er menntuð í arkitektúr og umhverfis- og auðlindafræði og hefur áður starfað við umhverfisvottanir bygginga.

Svanurinn óskar Elínu til hamingju með stöðuna og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Umhverfismerkisráð er samstarfshópur fulltrúa helstu hagsmunaaðila um umhverfismerki og er Umhverfis- og orkustofnun til ráðgjafar um stefnumótun Svansins. Í umhverfissmerkisráði eiga sæti fulltrúar frá Umhverfis- og orkustofnun, Neytendasamtökunum, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustu, Staðlaráði Íslands og frá landsbundnum félagasamtökum sem vinna að umhverfisvernd. Hlutverk fulltrúa í umhverfismerkisráði er að halda á lofti hagsmunum viðkomandi samtaka eða stofnunar og að upplýsa um breytingar og þróun málefna sem þessi reglugerð tekur á. Einnig skulu fulltrúarnir leitast við að auka þekkingu og áhuga á umhverfismerkjum innan sinna samtaka eða stofnunar.

Fleiri fréttir