fbpx
4. september 2025

Eykt hlýtur sitt fyrsta Svansleyfi fyrir fjölbýlishús í Hafnarfirði

Byggingarverktakinn Eykt hefur hlotið sitt fyrsta Svansleyfi fyrir fjölbýlishús að Áshamri 12-26 í Hafnarfirði. Um er að ræða sex fjölbýlishús, samtals um 18.000m2 og 154 íbúðir, sem er langstærsta verkefnið sem hefur verið Svansvottað hingað til. Jafnframt kemur Eykt einnig að fleiri Svansvottuðum framkvæmdum sem aðalverktaki og styrkir þannig stöðu sína sem einn af leiðandi aðilum í Svansvottuðum byggingum hér á landi.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt skref fyrir íslenskan fasteignamarkað, en verkefnið bætir verulega við úrvalið af Svansvottuðum íbúðum“ segir Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins, jafnframt tekur hún fram að það sé sérstaklega mikilvægt að auka framboð af umhverfisvænni kosti svo neytendur finni fyrir því að þessi valkostur sé í boði og kynnist nánar því sem býr að baki Svansvottaðra bygginga“. Nú þegar er fjöldi íbúða kominn á markað, bæði íbúðir sem hafa hlotið vottun en einnig íbúðir sem eru enn í Svansvottunarferli og eru því vonir um að eftirspurn eftir slíkum íbúðum fari vaxandi.

Gæði og umhverfisábyrgð í fyrirúmi

Svansvottun bygginga felur í sér strangar kröfur sem tryggja bæði umhverfisábyrgð og gæði. Þar má m.a nefna kröfur um:

Efnisval þar sem skaðleg efni eru m.a takmörkuð

Rakavarnir sem stuðla að heilnæmu innilofti

Orkunotkun sem skal vera innan ákveðinna marka

Dagsbirtu þar sem gerðar eru kröfur um dagsbirtuhönnun

Fyrir kaupendur eru Svansvottun íbúða því gæðastimpill, sem staðfestir að byggingin hafi verið hönnuð og byggð með langtímahagsmuni íbúa og umhverfisins að leiðarljósi.

Dagsbirtuhönnun

Sérstaklega er vert að nefna kröfur Svansins um dagsbirtu þegar talað er um gæði Svansvottaðra íbúða. Svanurinn gerir kröfu um að „dagsbirtu fakor“ (e. daylight factor) sé reiknaður út sem staðfestir viðeigandi dagsbirtu íbúðanna. Undanfarið hefur verið rætt að nýbyggingar á ákveðnum svæðum njóti ekki nægilegrar dagsbirtu, og því er þetta atriði sérstaklega mikilvægt í hönnun nýrra íbúða.

Rannsóknir sýna að dagsbirta hefur jákvæð áhrif á heilsu, líðan og svefn. Hún styður við náttúrulegan dægursveifluritma líkamans, bætir einbeitingu og minnkar líkur á þunglyndi. Á Íslandi, þar sem dimmur vetur og lítil dagsbirta setja svip sinn á daglegt líf, skiptir það sérstaklega miklu máli að íbúðir séu hannaðar þannig að þær nýti sem best dagsbirtuna yfir árið.

Fleiri fréttir