fbpx
25. nóvember 2013

Farfuglaheimilið Loft hlýtur Svansvottun

Þriðja farfuglaheimið á Íslandi hlaut Svaninn þegar farfuglaheimilinu Loft var veitt vottun norræna umhverfismerkisins á föstudaginn síðastliðinn. Loft er nýtt og glæsilegt farfuglaheimili í miðbæ Reykjavíkur en vottunin staðfestir framúrskarandi árangur þess í umhverfismálum. Athygli vekur hve Farfuglaheimilin í Reykjavík standa sig vel í að vinna að samfélagslegri ábyrgð og lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa.

“Loft var hannað með það að markmiði að starfsemin uppfyllti umhverfisvottun líkt og hin tvö Farfuglaheimilin okkar í Reykjavík. Svansvottun er gæðavottun sem stuðlar að rekstrarsparnaði og betri þjónustu. Að sækjast eftir henni fellur að skilningi Farfugla um mikilvægi ábyrgs reksturs” segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Lofts.

“Mikill metnaður er í öllu starfi hjá Lofti, sem endurspeglast í frábæru starfi þar sem frammistaðan er eftirtekarverð. Efnanotkun er í lágmarki, svo og orku og vatnsnotkun. Það vekur sérstaka athygli hversu vel gengur að flokka úrgang hjá farfuglaheimilinu þar sem gestir koma og dvelja aðeins í stutta stund. Það er jafnframt ánægjulegt að sjá hversu vel Lofti hefur gengið að miðla upplýsingum um umhverfisstarfið, tengja það við stóra samhengi hlutanna og hve miklu máli það skiptir að við tökum öll þátt í að stuðla að betra umhverfi og sjálfbærni. Það telst sérstaklega góður árangur að einungis 6 mánuðum eftir opnun Lofts hafi verið unnt að sýna fram á að byggðir hafa verið upp vandaðir gæðaferlar og að starfsemin uppfylli umfangsmiklar kröfur Svansins.” segir Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Loft er sjötti leyfishafinn í flokki hótela og farfuglaheimila á Íslandi en alls eru nú 26 íslensk fyrirtæki komin með Svaninn. Áhugi íslenskra fyrirtækja á Svaninum eykst sífellt og enn fleiri hótel hafa nú þegar sótt um Svaninn. Það verður þó að teljast sérstakt að helmingur þeirra sem eru með vottun í þessum þjónustuflokki í dag eru farfuglaheimili og má því segja að Farfuglar hafi unnið mikið frumkvöðla starf.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.

 

Fleiri fréttir