fbpx
12. nóvember 2018

Framleiðslufyrirtæki fær Svansleyfi

Á myndinni eru Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, og Baldvin Valdimarsson, forstjóri Málningar.

Í dag afhentu fulltrúar Umhverfisstofnunar Málningu hf. Svansleyfi fyrir alla innanhússmálningu í framleiðslu fyrirtækisins. Fyrirtækið er númer 38 á Íslandi sem hlýtur vottun Svansins. Leyfið nær yfir tæplega 30 tegundir innanhússmálningar sem seldar eru undir vörumerkjum Málningar og Slippfélagsins.

Þegar málning er vottuð er megináhersla lögð á efnainnihald þar sem leitast er við að lágmarka magn skaðlegra efna. Málning er eitt af þeim efnum sem hefur áhrif á inniloft og þar af leiðandi er mikilvægt að tryggja að málningin gefi ekki frá sér efni sem geta verið skaðleg heilsu. Minna magn skaðlegra efna dregur einnig úr neikvæðum áhrifum vörunnar þegar hún verður að úrgangi.

Framleiðsla á vörum hérlendis dregur úr því magni vatns sem flutt er til landsins bundið í vörum. Má því leiða líkum að því að varan hafi lægra kolefnisspor en sambærilegar vörur sem framleiddar eru erlendis og fluttar til landsins. Einnig skapar íslensk framleiðsla atvinnutækifæri.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá framleiðslufyrirtæki taka við sér og sækjast eftir óháðri umhverfisvottun. Hingað til hafa flestir leyfishafar verið þjónustufyrirtæki. Svanurinn er gæðastimpill og ætti vottun að bæta samkeppnishæfi vöru sem bera merkið,“ segir Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun óskar fyrirtækinu til hamingju og þakkar Málningu fyrir gott samstarf í umsóknarferlinu. Utanumhald og skipulag fyrirtækisins í öllu ferlinu var til fyrirmyndar. Fyrirtækið vann mjög markvisst að vottun á meðan á ferlinu stóð og gekk vinnan mjög örugglega fyrir sig.

Fleiri fréttir