fbpx
17. september 2024

Fyrsta Svansvottaða innréttingin!

Fanntófell hefur nú fengið afhent Svansleyfi fyrst íslenskra framleiðanda fyrir innréttingu, nánar tiltekið borðplöturnar Fenix NTM, Arpa og Duropal.

Um er að ræða fyrsta Svansleyfið sem gefið er út hér á landi í viðmiðunum fyrir húsgögn og innréttingar og er þetta því merkilegur áfangi bæði fyrir Fanntófell en einnig Svaninn á Íslandi.

Á síðustu árum hefur fjöldi verkefna sem fara eftir nýbyggingar og endurbótaviðmiðum Svansins fyrir byggingar fjölgað gífurlega og hefur á sama tíma eftirspurn eftir vottuðum byggingarvörum aukist. Hér á landi hefur verið eitthvað úrval af slíkum vörum og eru örfáir íslenskir framleiðendur byggingarvara sem hafa hlotið Svansottun.

Þegar innréttingar og húsgögn eru vottuð þurfa þau að uppfylla strangar kröfur Svansins þar sem meðal annars eru skoðuð þau efni sem notuð eru í framleiðsluferlinu, umbúðir, rekjanleika, ábyrgð framleiðanda og fleira. Svanurinn er ekki eingöngu umhverfismerki heldur eru einnig gerðar kröfur um að vörur sem bera merkið séu gæðaprófaðar t.d. með tilliti til styrkleika og slitþols. Kröfur Svansins staðfesta þ.a.l. að varan sé bæði endingargóð og að umhverfisáhrif hennar séu lágmörkuð.

Fanntófell hefur sýnt frumkvæði með því að ráðast í vottunarferlið og hefur ferlið verið lærdómsríkt bæði hjá Fanntófelli og Svaninum á Íslandi. Með þessum áfanga sýnir fyrirtækið að þeim sé umhugað um að selja betri vörur, bæði fyrir viðskiptavini sína en einnig fyrir umhverfið og óskum við þeim innilega til hamingju með þennan áfanga.

Fleiri fréttir