fbpx
25. mars 2011

Gallupkönnun um stöðu Svansins

Í nýútkominni könnun um umhverfis- og neytendamerki sem gerð var af Capacent Gallup í desember 2010 kemur í ljós að norræna umhverfismerkið Svanurinn er langþekktasta umhverfismerkið á Íslandi.

Þegar þátttakendur voru beðnir um nefna eitthvert umhverfismerki sem þeir könnuðust við þá nefndu 45% aðspurðra Svaninn en innan við 6% nefndu þau umhverfismerki sem næst komu í röðinni. Í sambærilegri könnun frá 2009 nefndu 28% Svaninn. Af þessu má sjá að Svanurinn er ekki einungis það merki sem er neytendum efst í huga heldur styrkir hann einnig stöðu sína verulega milli ára. Þegar þátttakendum könnunarinnar var sýnt merki Svansins sögðust 73% þekkja það og þegar spurt var hvaða merki tengir þú við umhverfisvernd nefndu langflestir Svaninn eða 79%.

Svanurinn virðist einnig hafa bætt mjög ímynd sína og almenningshylli milli ára því árið 2009 sögðu 8% aðspurðra að þeim líkaði við Svaninn en 2010 er þetta hlutfall komið í 46%. Hlutfallið hækkar því rúmlega fimmfalt á milli ára. En jafnframt því að gera kröfu um minni umhverfisáhrif, er einnig gerð krafa um virkni og gæði vottaðrar vöru eða þjónustu. Til að fá Svansmerkið þarf virkni að vera jafn góð eða betri en hjá annarri sambærilegri vöru eða þjónustu.

Neytendur voru spurðir hvort þeir treystu þeim framleiðendum sem lýstu því yfir að vara þeirra væri umhverfisvæn, en 17% þátttakenda voru mjög sammála þeirri staðhæfingu. Þegar spurt var hvort þeir treystu því að vara væri umhverfisvæn ef hún er merkt með Svaninum sögðust 65% vera sammála eða mjög sammála. Því virðist sem að kröfur Svansins um lágmörkun umhverfisáhrifa skili sér sem gæðastimpill til neytenda en með ströngum kröfum er tryggt að Svansmerkt vara eða þjónusta er betri fyrir umhverfið en sambærileg.

Kröfur Svansins ná yfir alla helstu umhverfisþætti eða í framleiðslu vöru svo sem orku– og hráefnanotkun, losun mengandi eða hættulegra efna, umbúðanotkun, flutning og meðhöndlun úrgangs. Það sama á við um þjónustuaðila en Svansmerkt hótel, ræstingarþjónustur, prentsmiðjur eða verslanir eru búin að lágmarka heildar umhverfisáhrif frá starfssemi sinni og innleiða orkusparnað, vistvæn innkaup og betri lausnir við úrgangsmeðhöndlun.

Í dag er hægt að fá Svaninn fyrir um 70 mismunandi flokka vöru og þjónustu og yfir 6000 vörutegundir og þjónusta ber merki Svansins. Á Íslandi bera nú 14 aðilar umhverfisvottun Svansins en það eru prentsmiðjurnar Guðjón Ó, Oddi, Svansprent, Ísafold og Háskólaprent; ræstingarþjónusturnar Sólarræsting, ISS, Hreint, Nostra og AÞ-þrif; iðnaðarhreinsiefni frá Undra, Farfuglaheimilið í Laugardal og á Vesturgötu og kaffihús Kaffitárs. Nánar má lesa um Svaninn á svanurinn.is.

Fleiri fréttir