GG Þjónusta: Nýjasti Svansleyfishafinn fyrir ræstiþjónustu

GG Þjónusta varð í dag nýjasti leyfishafi í hópi Svansvottaðra ræstiþjónusta og þar með fyrsti leyfishafi nýjustu útgáfu þeirra viðmiða.
GG Þjónusta, sem staðsett er á Neskaupstað, þjónustar fyrirtæki og einstaklinga þar í bæ og á nærliggjandi svæði. Guðbjörg og Gunnhildur, eigendur GG Þjónustu, hafa unnið hörðum höndum að því síðustu mánuði að skipta alfarið yfir í vottuð ræstiefni sem og Svansvottaðar tuskur og moppur. Flokkun er vel háttað og hefur akstursfyrirkomulagi fyrirtækisins verið breytt til að lágmarka eldsneytisnotkun. Þær hafa nú erindi sem erfiði, enda Svansvottun komin í hús.
Í viðmiðum Svansins fyrir ræstiþjónustur er lögð áhersla á bæði umhverfi og heilsu starfsfólks, enda getur mikil efnanotkun fylgt ræstingum. Með því að nota umhverfisvottuð efni til ræstinga í auknum mæli er notkun á skaðlegum efnum haldið í algjöru lágmarki þar sem mörg efni sem eru algeng í ræstivörum eru bönnuð í umhverfisvottuðum vörum. Þetta á til dæmis við um efni sem geta verið hormónaraskandi, ofnæmis- og krabbameinsvaldandi. Vottun Svansins nær einnig til fleiri þátta eins og þjálfun starfsfólks og innkaupaferla fyrirtækisins sem styður við forsendur vottunarinnar. Það þarf því að horfa til margra þátta til að hljóta Svansvottun, enda er Svanurinn lífsferilsmerki sem skoðar heildstætt það sem vottað er.
Við óskum GG Þjónustu innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum við til áframhaldandi samstarfs.