fbpx
6. nóvember 2018

Glæsilegur ársfundur Svansins

Fimmtudaginn 25. október fór fram ársfundur Umhverfismerkisins Svansins. Fundurinn fór fram á alþjóðlegum degi umhverfismerkja sem haldinn var í fyrsta skipti. Í dagskrá ársfundarins var lögð áhersla á umhverfismál byggingariðnaðarins og þá þróun sem orðið hefur á framboði af Svansvottuðum byggingarvörum (sjá dagskrá hér að neðan). Einnig var gestum boðið upp á hugvekju um efnishyggju og samband neyslu og hamingju. Fundurinn tókst með eindæmum vel og vill Svanurinn þakka fyrirlesurum og gestum fyrir góðan fund.

Greinilegt var á fundinum að áhugi og þekking á umhverfismerkjum hefur aukist töluvert á síðustu misserum, meðal annars innan byggingariðnaðarins. Því má að miklu leyti þakka því frumkvöðlastarfi sem unnið var í kringum byggingu Visthússins og þeirri umfjöllun sem fór af stað í kringum það verkefni.

Í aðdraganda fundarins gaf Svanurinn út Fréttabréf Svansins þar sem meðal annars er kynnt uppgjör Svansins fyrir 2017 ásamt því sem farið er yfir helstu verkefni ársins. Til upplýsinga kom einnig út á dögunum nýr kynningarbæklingur Svansins.
Dagskrá fundarins var sem hér segir:
Ávarp framkvæmdastjóra Svansins
Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri á Umhverfisstofnun
Staða Svansins á Íslandi
Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur á Umhverfisstofnun
Umhverfismál byggingariðnaðarins
Ólafur H. Wallevik, forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins
Vöruúrval í byggingariðnaðinum
Finnur Sveinsson, ráðgjafi og eigandi Visthús
Svansvottuð íslensk framleiðsla
Jón Bjarnason, efnaverkfræðingur hjá Málningu hf.
Efnishyggja, hamingja og sjálfbær framtíð
Nina M. Saviolidi, umhverfisfræðingur og doktorsnemi í viðskiptafræði

Fleiri fréttir