GRÆNNI vörur ryðja sér til rúms hjá stórnotendum

Umhverfisvæn framleiðsla hreinsiefna á Íslandi hefur fengið byr undir báða vængi hjá efnasprotafyrirtækinu Gefn. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum framleitt GRÆNNI hreinsiefnin – vörulínu sem byggir á nýsköpun í grænni efnafræði og hringrásarlausnum og er jafnframt Svansvottuð. Við framleiðslu hreinsiefnanna eru notuð innlend hráefni sem unnin eru úr úrgangi. Með því er bæði dregið úr úrgangsmyndun og framleiddar vörur sem uppfylla strangar kröfur um umhverfis- og heilsuvernd.
Frá upphafi hefur Gefn, undir forystu Ásgeirs Ívarssonar, lagt mikla áherslu á að GRÆNNI vörurnar bæru viðurkennda og áreiðanlega umhverfisvottun. Því var snemma í vöruþróunarferlinu ákveðið að sækja um Svansvottun fyrir allar vörurnar sem þróaðar yrðu. Útkoman eru áhrifarík og örugg hreinsiefni sem eru mild fyrir umhverfið og heilsu manna, en jafnframt styðja við markmið Íslands um virkt hringrásarhagkerfi og aukna sjálfbærni.
Nú eru GRÆNNI vörurnar að ryðja sér til rúms hjá stórnotendum – sérstaklega hjá fyrirtækjum þar sem mikilvægt er að draga úr neikvæðum áhrifum fráveitu, svo sem við þvott á ökutækjum og vélum. Nýlega tók GTS, rútufyrirtæki með um 50 rútur, hreinsiefnin inn í sinn rekstur. Þar sem fráveita frá þvottastöðvum endar ávallt í umhverfinu er val á umhverfisvottaðri lausn skref í átt að ábyrgu og vistvænu rekstrarumhverfi. Það er því miður enn algengt að hefðbundin hreinsiefni fyrir ökutæki og vélar innihaldi efni sem eru banvæn við inntöku og geta haft skaðleg áhrif á lífríki ef þau berast í vatn eða jarðveg. Með því að velja Svansvottað er hægt að draga verulega úr slíkum áhrifum. Svansvottunin gerir miklar kröfur á niðurbrjótanleika efna og leggur bann við notkun efna sem eru talin krabbameinsvaldandi eða stökkbreytandi eða sem efni sem hafa eiturhrif á æxlun. Vöruþróun Gefn og samstarf þeirra við fyrirtæki á borð við GTS eru skýrt dæmi um hvernig vistvæn innkaup geta stutt við innlenda nýsköpun og mótað þannig sjálfbærari framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf.
Á dögunum heimsóttu fulltrúar Svansins fyrirtækið Gefn og ræddu GRÆNNI hreinsiefnin, skemmtilegt er að segja frá því að fleiri vörur GRÆNNI eru væntanlegar á markað og aðrar eru í þróun. Samstarf Gefn og Svansins hefur verið einstaklega ánægjulegt og sérstakt að því leyti að Svanurinn hefur fengið að vinna með fyrirtækinu allt frá vöruþróun að hilluvöru. Það er ánægjulegt að sjá metnaðarfulla íslenska nýsköpun styðja við og treysta á vottunarkerfi eins og Svaninn – og sanna að grænar lausnir í hreinsiefnum geta verið bæði árangursríkar og ábyrgar.

Fleiri fréttir

GRÆNNI vörur ryðja sér til rúms hjá stórnotendum

Kópavogsbær fær sitt fyrsta Svansleyfi fyrir nýbyggðan búsetukjarna

Svansdagar hefjast í dag!
