Íslendingar treysta Svaninum
Könnun á ýmsum málum er varða Svaninn og umhverfismerki var framkvæmd á fyrstu vikum ársins. Könnunin var framkvæmd af MMR á Íslandi. Þátttakendur voru á aldrinum 15-74 ára og fengust svör frá 598 á Íslandi.
Þegar þátttakendum var sýnt Svansmerkið þá þekktu 77% merkið í sjón. Frá árinu 2008 hefur þetta hlutfall breyst mikið en þá sögðust aðeins 23% þekkja merkið.
Þegar þátttakendur voru beðnir um að nefna fyrsta umhverfismerki sem þeim dytti í hug þá nefndu 42% Svaninn, aðeins 2% nefndu önnur merki og aðrir gátu ekki nefnt neitt merki.
Áhugavert er að sjá að 43% aðspurðra segjast vera jákvæðari í garð þeirra fyrirtækja sem kaupa umhverfisvottaðar vörur og þjónustu í sínum rekstri. Þegar þátttakendur eru spurðir hvort þeir treysti yfirlýsingum um umhverfiságæti vöru ef varan er með Svaninn þá svara 41% því játandi. Það er töluvert hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum en þar er meðaltalið 21%.
Þátttakendur voru einnig spurðir um við hvers konar innkaup það komi helst fyrir að þeir leiti að Svansmerktum vörum. Um 31% sögðust velja Svaninn alltaf eða stundum þegar þeir kaupa snyrtivörur, barnavörur eða aðrar vörur til daglegrar notkunnar. Hins vegar sögðust aðeins 11% þátttakenda velja Svaninn þegar þeir kaupa byggingarvörur.
Gaman er að sjá að 34% aðspurðra segjast vera mjög uppteknir af því hvað þeir geta gert til að vernda umhverfið. Bæði árin 2010 og 2011 svöruðu 27% þessari spurningu játandi sem bendir til þess að umhverfisvitund almennings fari örlítið vaxandi hér á landi.