Íslenskt timbur leyfilegt í Svansvottaðar byggingar
Nýlega var íslenskt timbur samþykkt til notkunar í Svansvottuðum byggingum. Kröfur Svansins fyrir nýbyggingar og endurbætur gera ráð fyrir því að minnsta kosti 70% af timbrinu sem notað er í bygginguna sé FSC eða PEFC vottað og að restin sé stjórnað af þessum kerfum, „controlled wood“ (FSC) og „controlled sources“ (PEFC).
Timbur sem vottað er samkvæmt þessum vottunarkerfum kemur úr sjálfbærum skógum en einnig er búið að tryggja rekjanleika þess og fleira.
Íslenskar timburafurðir bera ekki þessar vottanir þar sem framleiðslan er enn það lítil hér á landi að það borgar sig ekki að fá vottunina.
Viður sem FSC og PEFC flokka sem controlled wood og controlled sources er ekki vottaður en hann hefur þó uppfyllt ákveðin grunnskilyrði. Í samvinnu við Skógræktina, Bændasamtökin og Trétækniráðgjöf slf var farið í gegnum kröfur FSC/PEFC og þær skoðaðar í samræmi við íslenskt timbur. Niðurstaðan var sú að íslenskt timbur uppyllir þær kröfur sem Svanurinn telur ásættanlegt til að vera leyft í Svansvottuð hús.
Í maí 2022 fékkst þess vegna undanþága gagnvart því að notast við íslenskt timbur á sama hátt og controlled wood og controlled sources eru notaðar í Svansvottuðum byggingum ef framleiðendur geta sýnt fram á eftirfarandi:
- Að viðurinn komi ekki úr skógum sem stunda ólöglegt skógarhögg
- Að viðurinn sé ekki felldur af eða unnin í bága við hefðbundin mannréttindi (til dæmis ef notast er við starfsmenn undir lögaldri)
- Að viðurinn komi ekki frá svæðum þar sem verndun svæðisins er ógnað vegna rekstursins
- Að viðurinn komi ekki úr náttúruskógum sem verið er að breyta í gróðursetta skóga annarra tegunda.
- Að viðurinn komi ekki úr skógum þar sem erfðabreytt tré hafa verið gróðursett
- Að viðurinn komi ekki af svæði þar sem líffræðilegum fjölbreytileika er ógnað
- Að framleiðandi geti sýnt fram á leyfi til að fella skóg sem Skógræktin veitir. Til að fá leyfið þarf umsækjandi að veita upplýsingar um hvar áformað sé að fella skóg og hvenær, á hversu stóru svæði og hvaða aðferð verði beitt við fellinguna (fellingarkerfi). Að fenginni umsókn metur Skógræktin hvort umsókn er í samræmi við viðmið um sjálfbæra skógrækt.