Jáverk fær tvö ný Svansleyfi – fyrstu Svansvottuðu íbúðirnar í Hveragerði og Kópavogi
Í vikunni hlaut verktakafyrirtækið Jáverk tvö ný Svansleyfi; fyrir Austurmörk í Hveragerði og fyrir fyrsta áfanga á Traðarreit eystri í Kópavogi. Í Hveragerði voru það 44 íbúðir sem fengu vottun og í Kópavogi 118 íbúðir og er þetta því gott framlag til umhverfisvæns íbúðarframboðs.
Mikilvægt framlag til húsnæðisframboðs á landsbyggðinni
Með vottuninni styrkist m.a framboð á íbúðum á Suðurlandi. Á síðustu árum hefur Hveragerði vaxið hratt og sífellt fleiri velja að flytja þangað. Því skiptir máli að bjóða upp á fjölbreytt úrval gæðaíbúða víðsvegar um landið, þar sem sjálfbærni og heilnæm innivist eru höfð að leiðarljósi.
Fyrstu Svansvottuðu íbúðirnar í Kópavogi
Þetta eru jafnframt fyrstu íbúðirnar til að hljóta Svansvottun í Kópavogi og enn eru 62 íbúðir í vinnslu og Svansvottunarferli. Þetta markar því mikilvægt skref í sjálfbærri þróun sveitarfélagsins.
Svansvottaðar byggingar tryggja að umhverfisáhrif eru lágmörkuð í gegnum allt ferlið – frá hönnun og efnisvali til framkvæmdar og reksturs. Það er ánægjulegt að sjá fyrirtæki eins og Jáverk halda áfram að leiða veginn í umhverfisvænni uppbyggingu á Íslandi.
Fyrirtækið hefur áður fengið Svansleyfi fyrir sumarhús í Bláskógarbyggð og fjölbýlishúsabyggð á Seltjarnarnesi. Þar að auki eru þrjú önnur verkefni hjá þeim í Svansvottunarferli og samtals eru þetta 379 íbúðir sem eru ýmist Svansvottaðar eða í ferli.
22. desember 2025
11. desember 2025
4. desember 2025
17. nóvember 2025
