fbpx
18. september 2025

Jáverk fær Svansvottun fyrir eitt af mörgum fjölbýlishúsaverkefnum í vottunarferli

Jáverk hefur nú fengið sitt annað Svansleyfi, að þessu sinni fyrir fjölbýlishús á Bygggörðum á Seltjarnarnesi. Þetta er fyrsta af fimm fjölbýlishúsaverkefnum sem fyrirtækið vinnur að. Verkefnin eru staðsett á Seltjarnarnesi, Selfossi, í Hveragerði og í Kópavogi og munu þau samanlagt fela í sér 379 íbúðir.

Fram að þessu hafa flestar Svansvottaðar íbúðir verið á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Hafnarfirði. Með þessu verkefni eykst hins vegar framboð vottaðra íbúða á nýju svæði.

„Það er virkilega metnaðarfullt hjá Jáverk að halda svona áfram og skuldbinda sig í að votta öll verkefnin sín. Það sýnir að fyrirtækinu er umhugað um umhverfismál en einnig að skila af sér vönduðum íbúðum,“ segir Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins.

Svansvottun tryggir ákveðin gæði íbúða, meðal annars:

  • að ákveðin dagsbirtugæði séu til staðar
  • efnisval standist strangar umhverfis- og heilsukröfur
  • rakaöryggi sé tryggt með vönduðum verklagsreglum, svo sem rakamælingum og réttum geymsluskilyrðum byggingarefna.

Með kröfum um rakaöryggi er tryggt að fylgt sé eftir ákveðnum áhættuþáttum á framkvæmdartímanum eins og þornun byggingarefna, þá er gerð krafa um að framkvæma rakamælingar, að byggingarefni séu geymd á þurrum stað og margt fleira.

„Við trúum því að með Svansvottuninni séum við að byggja betri eignir sem hjálpar okkur og verður vonandi til þess að í framtíðinni haldi þessar íbúðir frekar verðgildi sínu sem skilar sér til kaupenda seinna meir.“ segir Gylfi Gíslason, framkvæmdarstjóri Jáverk.

Jáverk hefur áður fengið Svansvottun fyrir hús í Bláskógarbyggð og var jafnframt aðalverktaki við byggingar í miðbæ Selfoss. Fyrirtækið hefur því öðlast mikla reynslu og er nú leiðandi í Svansvottun bygginga á Íslandi.

Við óskum Jáverk innilega til hamingju með þennan stóra áfanga.

Fleiri fréttir