fbpx
12. mars 2024

Leikskólinn Aðalþing – fyrsta Svansvottaða skólaeldhúsið

Frá vinstri: Hörður Svavarsson leikskólastjóri, Heiðdís Hauksdóttir, matreiðslumaður Aðalþings, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Agnes Gústafsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri og Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Þann 12. mars fékk eldhús leikskólans Aðalþings Svansvottun, fyrst íslenskra skólaeldhúsa.

Svansvottunin er glæsileg viðbót við það metnaðarfulla starf sem unnið er á leikskólanum í þágu umhverfis og heilsu fólks, en mikil áhersla hefur verið lögð á þessi mál um árabil. Síðan 2015 hefur leikskólinn stefnt að því að vera eiturefnalaus, enda börn viðkvæmari fyrir skaðlegum efnum en þau sem eldri eru og því mikilvægt að huga vel að efnum í umhverfi barna.

Svansvottun eldhússins er svo frábært áframhald á umhverfisstarfinu, enda matur stór hluti af lífi allra. Í bæklingi sem gefinn var út við tilefnið segir: „Matur getur aldrei verið aukaatriði í lífi okkar. Það er augljóst að gott eldhús og góður matur er forsenda fyrir góðu skólastarfi.“

Svansvottun á veitingarekstri setur kröfur tengdum öllum lífsferli þjónustunnar. Meðal annars er lögð áhersla á að innkaup matvæla séu að stórum hluta lífræn og með lægra kolefnisspor. Áhersla er einnig lögð á úrgangsforvarnir, t.d. með mælingum, miðlun og aðgerðum gegn matarsóun. Auk þess er rík áhersla á umhverfisvottaða efnavöru til þrifa.

Einn af ávinningum vottunarferlisins er að oft eykst skilningur á umhverfisþáttum rekstursins sem leiðir oftar en ekki til rekstrarsparnaðar þar sem innkaup eru einfölduð og gerð skilvirkari.

Í tilefni leyfisveitingarinnar var haldið opið hús þar sem sýnt var frá starfi leikskólans og boðið var upp á kræsingar í anda þess sem boðið er uppá í daglegu starfi, sem gestir gátu gætt sér á.

Við óskum Aðalþingi innilega til hamingju með vottunina, og með það fordæmi sem leikskólinn setur í íslensku samhengi.

Viltu vita meira um Svansvottun mötuneyta?

Fleiri fréttir