fbpx
29. júní 2022

Lónið, mötuneyti Landsvirkjunar hlýtur Svansvottun

Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Ingvar Sigurðsson matreiðslumeistari, Íris Lind Magnúsdóttir, starfsmaður Lónsins, Ragna Hjördís Ágústsdóttir starfsmaður Lónsins.

Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi afhenti Landsvirkjunar Svansleyfi fyrir vottun á Lóninu, mötuneyti Landsvirkjunar á Háaleitisbraut 68. Í mötuneytinu starfa tveir matreiðslumeistarar, Hekla Karen Pálsdóttir og Ingvar Sigurðsson sem veitti leyfinu móttöku.

Vottun  Lónsins er eitt framtak Landsvirkjunar af mörgum við að fylgja eftir stefnu sinni um að vera í fararbroddi á sviði loftslags- og umhverfismála. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að lágmarka öll umhverfisáhrif af eigin rekstri og er einnig aðili að grænum skrefum ríkisaðila. Svansvottun Lónsins styður einmitt við grænu skrefin og auðveldar Landsvirkjun að uppfylla skrefin fimm.

Við afhendinguna sagði Elva Rakel: “Þegar við fórum að fara yfir umsóknina var greinilegt að mikil forvinna hafði nú þegar átt sér stað hjá mötuneytinu og þau voru á mjög góðum stað þegar þessi vegferð hófst. Það var augljóst í ferlinu að allir voru sammála um að Svanurinn væri gott verkfæri fyrir mötuneytið og mikill einhugur í starfsfólki sem kom að vottuninni að klára ferlið með glæsibrag. Það sýndi sig að vottunin þarf ekki að vera tímafrek ef allir vinna saman að þessu marki enda Svansvottunin í höfn á mettíma.

Lónið er fjórða mötuneytið á Íslandi sem hlýtur umhverfisvottun Svansins, en í viðmiðunum er meðal annars lögð áhersla á að velja lífrænt vottuð matvæli og matvöru með lægra kolefnisspor. Kröfurnar sem Svanurinn gerir á mötuneyti voru nýlega hertar og með uppfærslunni var lögð enn ríkari áhersla á mælingar, miðlun og aðgerðir gegn matarsóun. Einn af ávinningunum af því að fara í vottunarferli er að almennt eykst skilningur á umhverfisþáttum rekstursins sem leiðir oftar en ekki til rekstrarsparnaðar þar sem innkaup eru einfölduð og gerð skilvirkari. Til að stuðla að heilnæmara starfsumhverfi og svo minnka megi álag á lífríkið er einnig rík áhersla á umhverfisvottaða efnavöru.

Í vottunarferlinu setti Landsvirkjun saman umhverfishandbók fyrir Lónið þar sem haldið er utan um verkferla, aðferðarfræði við mælingar á matarsóun, notkun á orkufrekum búnaði og hvaða efnavöru skal nota svo eitthvað sé nefnt. Lónið hefur lagt í metnaðarfullt starf til að lágmarka neyslu matargesta á mjólkurvöru í einnota umbúðum, þetta er m.a. gert með því að bjóða uppá stöð til hafragrautsgerðar og einnig er matargestum boðið uppá chiagraut í fjölnota glerkrukkum. En lágmörkun á einnota umbúðum er einmitt eitt af áherslunum hjá Svaninum.

Viltu vita meira um Svansvottun mötuneyta?

Fleiri fréttir