17. nóvember 2025

Mötuneyti Seðlabankans Svansvottað

Katla Þöll Þórleifsdóttir, sérfræðingur hjá Svaninum, afhendir Sveini Kjartanssyni, yfirmatreiðslumanni mötuneytis Seðlabanka Íslands, Svansleyfið

Mötuneyti Seðlabanka Íslands er komið í hóp þeirra mötuneyta sem hlotið hafa Svansvottun hérlendis. Starfsfólk Seðlabankans sýnir þannig í verki að þau setja umhverfismálin í forgang í sinni starfssemi og geta verið stolt af því afreki.

Ferlið hefur tekið tíma, sem má að miklu leyti rekja til breytinga innan veggja Seðlabankans sem setti strik í reikninginn. Það er því enn sætara að vottunarferlinu sé lokið og mötuneytið nú vottað.

Það er ekki hlaupið að því að fá Svansvottun fyrir mötuneyti enda tekur hún á öllum lífsferli þjónustunnar, með áherslu á þá þætti sem hafa hvað mestu umhverfisáhrifin. Meðal annars skulu innkaup matvæla vera að stórum hluta lífræn og með lægra kolefnisspor. Áhersla er einnig lögð á úrgangsforvarnir, t.d. með aðgerðum gegn matarsóun með skýrum mælingum og miðlun til gesta mötuneytisins. Efnavara til daglegra þrifa þarf einnig að vera umhverfisvottuð til að takmarka skaðleg efni í umhverfi starfsfólks og gesta og svona mætti lengi telja.

Allt er þetta gert í þágu umhverfisins, en ekki síður heilnæmis starfsfólks og gesta mötuneytisins, enda fer það oftast saman – það sem er betra fyrir umhverfið er betra fyrir okkur og öfugt.

Auk þess að uppfylla kröfur Svansvottunarinnar gengur mötuneyti Seðlabankans stundum enn lengra. Má þar nefna að einu sinni í viku er bara grænmetisréttur á boðstólnum, sem er almennt með lægra umhverfisspor. Upplýsingum um matarsóun hvers dags er einnig miðlað til gesta til að koma í veg fyrir sem mesta sóun. Ýmis áform eru svo á lofti um hvernig ganga má enn lengra og verður því gaman að fylgjast með í framhaldinu.

Við óskum mötuneyti Seðlabanka Íslands innilega til hamingju með árangurinn og Svansvottunina.

Starfsfólk mötuneytis Seðlabankans var að vonum ánægt við leyfisveitinguna.

Fleiri fréttir