Nú er hægt að Svansvotta rekstur og viðhald bygginga!
Upptaka frá kynningarfundinum: Webinar Nordic Swan Ecolabel building operations
Kynning á Svansvottun fyrir rekstur og viðhald bygginga
Þann 5. nóvember verður haldinn opinn kynningarfundur á netinu um Svansvottun fyrir rekstur og viðhald bygginga. Öll eru velkomin.
Dagskráin er eftirfarandi:
08:00 – 08:15 Markaðstækifæri og virðisauki með Svansvottuninni
08:15 – 08:45 Kynning á kröfum og tengslum við flokkunarkerfi ESB
08:45 – 09:00 Hvernig fer vottunin fram?
09:00 – 09:30 Spurningar og svör
Vinsamlegast skráið ykkur hér ef þið viljið mæta á opna kynningarfundinn: https://svanemerket.no/uncategorized/sign-up-for-launch-webinar-nordic-swan-ecolabel-building-operations/
Athugið að fundurinn er norrænn og fer fram á ensku.
Svansvottun er tækifæri fyrir þau sem vilja minnka umhverfis- og loftslagsáhrif frá rekstri og viðhaldi bygginga
Allar byggingar hafa áhrif á náttúru, umhverfi og loftslag, bæði þegar þær eru reistar og í rekstri. Viðmið Svansins um rekstur og viðhald bygginga snúa að því að koma í veg fyrir sóun auðlinda og tryggja að umhverfisáhrif bygginga séu í lágmarki. Markmiðið er að draga úr loftslagsáhrifum, tryggja góða innivist og tryggja lengri líftíma bygginganna.
Orkunotkun í lágmarki
Viðmiðin gera kröfu um að lágmarka orkunotkun. Uppfylla þarf kröfur um aðskilin mælikerfi fyrir hita, kælingu og rafmagn, sem gefur betri yfirsýn fyrir notkunina. Auk þess er gerð krafa um reglulega hagræðingu tengda orkunotkun.
Áhættugreining loftslagsbreytinga
Til að fá Svansvottun fyrir rekstur og viðhald bygginga er nauðsynlegt að kortleggja áhrif loftslagsbreytinga á bygginguna. Þetta geta til dæmis verið skemmdir af völdum veðurs og vinda sem og áskoranir eins og hærra sjávarborð og skriðuföll.
Kostnaður vegna veður- og náttúruvár hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og hefur Ísland ekki farið varhluta af því.
Með því að kortleggja þessa áhættu er rekstraraðili betur í stakk búinn til að mæta bæði núverandi og framtíðaráskorunum um sjálfbæran rekstur.
Um kröfur Svansins á rekstri og viðhaldi bygginga:
Skyldukröfurnar eru 38 talsins og ná yfir níu megin flokka. Kröfurnar fela bæði í sér daglegan rekstur og viðhald bygginga. Kröfurnar snerta meðal annars á eftirfarandi atriðum:
- Orkusparnað með því að fylgjast með notkun og gera úrbætur.
- Áhættugreiningu loftslagsbreytinga.
- Góð innivist tryggð með því að fylgjast með raka og takmarka notkun skaðlegra efna.
- Vatnsnotkun lágmörkuð með því að fylgjast með notkun og nota vatnssparandi tækni.
- Skref tekin til að auðvelda leigjendum að gera við hluti og endurvinna/endurnýta úrgang.
- Ýtt undir líffræðilegan fjölbreytileika lóða.
- Einungis er notast við vörur og þjónustu sem uppfylla strangar heilsu- og umhverfiskröfur.