Nýtt efnissamþykktarferli Svansvottaðra bygginga
Með tilkomu nýrra viðmiða fyrir nýbyggingar, New buildings útgáfu 4 sem tóku gildi snemma árs 2023 hefur verið tekin í notkun ný byggingarvörugátt sem nefnist SCDP, Supply chain declaration portal.
Ástæðan fyrir þessari nýju vörugátt er að öll gagnaskil eru að flytjast á rafrænt form hjá Svaninum og er búið að innleiða þá vinnu fyrir nýbyggingaviðmiðin. Skilin munu því eiga sér stað í gegnum vefgátt sem nefnist NEP, Nordic Ecolabel Portal sem umsækjendur fá aðgang að en þar geta þeir einnig leitað að samþykktum og vottuðum vörum.
SCDP vörugáttin er ætluð fyrir framleiðendur, birgja og söluaðila að skrá sig inn og senda inn umsókn fyrir efnissamþykkt en nýlega var það samþykkt að birgjar og söluaðilar mega einnig senda inn slíkar umsóknir svo lengi sem þeir eru með þær upplýsingar um vöruna sem Svanurinn biður um. Vörur sem eru skráðar og samþykktar inná SCDP birtast þá í NEP þegar umsækjendur leita að leyfilegum vörum.
Hér má finna leiðbeiningar sem lýsa umsóknarferlinu
Breytingar á efnissamþykktarferli fyrir ákveðna vöruflokka
Í einhverjum tilfellum hafa breytingar orðið á efnissamþykktarferlinu og hvort skrá þurfi vörur í gegnum vörugáttina. Reglan er sú að ef framleiðandi þarf að fylla út yfirlýsingu (declaration) í formi viðauka um vöruna að þá skal skrá hana í gegnum SCDP svo hún birtist í NEP. Ef framleiðandi þarf ekki að skila inn slíkri yfirlýsingu þarf ekki að skrá vöruna á þennan hátt.
Ein helsta breytingin sem hefur orðið hvað þetta varðar eru vörur sem falla einungis undir kröfuna um bakteríueyðandi yfirborðsmeðhöndlanir. Núna þarf framleiðandi vörunnar ekki að skila af sér yfirlýsingu heldur þarf leyfishafinn/umsækjandinn að tryggja það að ekki séu keyptar inn vörur með slíkum efnum. Hér má sjá nánari upplýsingar um þetta ferli.
„Gamla“ vörugáttin
Gamla vörugáttin eða HPP, Hus Produkt Portalen er ennþá í gildi á meðan umsækjendur eru enn að vinna í verkefnum sem fylgja útgáfu 3. Samþykktar vörur sem skráðar eru inn á HPP eru þó einungis samþykktar fyrir útgáfu 3 í nýbyggingarviðmiðunum og útgáfu 1 í endurbótaviðmiðunum.
Íslenski efnislistinn og samþykktarblöð
Fyrir útgáfu 3 í nýbyggingarviðmiðunum og útgáfu 1 í endurbótarviðmiðunum hefur verið notast við svokallaðan íslenskan lista. Þegar byrjað var að Svansvotta byggingar hér á landi var takmarkað magn til af vörum sem voru samþykktar og var því mikilvægt að ferlið til að fá efni samþykkt gengi hratt og örugglega fyrir sig. Því var ákveðið að leyfa ákveðna B leið þar sem umsækjendur, söluaðilar og fleiri sendu viðeigandi viðauka á pdf-formi á framleiðendur, fengu þá til að fylla út skjölin og komu þeim svo útfylltum til Svansins á Íslandi. Ef vörurnar fengu samþykki eftir yfirferð Svansins var þeim bætt á íslenska listann.
Þar sem íslenski listinn einskorðast við íslenskan markað inniheldur hann mun færri samþykktar vörur heldur en vörugáttirnar. Vörugáttirnar eru stærsti vettvangurinn til að leita að samþykktum og vottuðum vörum og þær innihalda tugi þúsunda vara sem eru bæði samþykktar og vottaðar. Áætlað er að í framtíðinni munu umsækjendur einungis notast við vörugáttirnar og að hætt verði að nota íslenska listann með tilkomi nýrra viðmiða.
Einnig skapaðist sú hefð að gefa út samþykktarblöð þegar farið var þessa íslensku B leið til að viðkomandi væri með eitthvað í höndunum til staðfestingar. Ákveðið hefur verið að hætta að gefa út samþykktarblöðin þar sem það verklag tíðkast ekki annarsstaðar hjá Svaninum. Ekki þarf aðra staðfestingu á að vara sé samþykkt í Svansvottuð hús en að hún finnist á vörugáttum Svansins.
Vakið skal athygli á að leyfishafi ber alltaf ábyrgð á því að kröfur Svansins séu uppfylltar og því mikilvægt að athugað sé hvort að vara sé samþykkt í vörugáttunum áður en hún er keypt – hvort sem að söluaðili hafi merkt hana sem leyfilega eða ekki.