fbpx
15. september 2020

Opið umsagnarferli: Viðmið Svansins fyrir hótel, veitingarekstur og ráðstefnurými

Síðustu 2 ár hefur Norræna umhverfismerkið Svanurinn unnið að uppfærslu á viðmiðum Svansins fyrir hótel, veitingarekstur og ráðstefnurými. Til að samstaða sé um innihald viðmiðanna er mjög mikilvægur hluti af ferlinu að fá viðbrögð frá þjónustugeiranum.

Gæðakerfi Svansins byggir upp á að öll viðmið séu endurskoðuð reglulega til að Svanurinn haldi sérstöðu sinni og fyrirtæki með Svaninn séu raunverulega í fararbroddi í umhverfismálum. Endurskoðunin byggir á lífsferilshugsun þar sem lagt er upp með að gera kröfur um þá þætti í rekstri fyrirtækisins sem hefur hvað mest umhverfisáhrif og þar af leiðandi má finna mestu möguleika á umbótum.

Hér á eftir fer laus yfirferð á helstu breytingum en við viljum vekja sérstaka athygli á uppfærðum kröfum um orkunotkun og einnota umbúðir!

Hér má finna tillögurnar að nýjum viðmiðum og bakgrunnsskjal með ítarefni um hverja kröfu. Athugasemdir og spurningar sendist á birgittas@ust.is í síðasta lagi 8.nóvember.

 

Hverjir geta sent inn umsögn?

Hver sem er, fyrirtæki og stofnanir sem hafa áhuga á viðmiðaþróun Svansins fyrir hótel, veitingarekstur og ráðstefnurými.

 

Hvað svo?

Þegar umsagnarferlinu lýkur eru athugasemdir teknar saman og metnar. Eftir það eru lagðar fram nýjar tillögur að uppfærðum viðmiðum sem fara svo til samþykktar hjá Norræna Umhverfismerkisráðinu.

Samantekt athugasemda sem fram komu í umsagnarferlinu eru hluti af þeim gögnum sem lögð eru fyrir ráðið. Samantektin er einnig gefin út samhliða útgáfu nýrra viðmiða.

 

Hverjar eru helstu breytingarnar

Uppsetning
Uppsetningu viðmiðaskjalsins hefur verið breyst til að einfalda skilning og yfirferð og til að auðvelda fyrirtækjum með mismunandi rekstur að finna hvaða kröfur eiga við þá. Einnig hefur verið leitast við að fækka fjölda krafa.

Umhverfisstjórnun (kafli 2)
Kröfur sem snúa að stöðugum framförum hafa verið gerðar að skyldukröfum á sama tíma og aðgerðir til að draga úr auðlindanotkun hefur verið bætt við sem stigakröfu. Krafa um ársskýrslur hefur verið uppfærð með aukinni áherslu á gildi þeirra og reglulegra samtals milli Svansins og leyfishafanna.

Orka (kafli 3 og kafli 4)
Almennt hefur uppsetningu orkukrafa verið breytt frá síðustu viðmiðum en því til viðbótar hefur verið gerð sérstök undanþága fyrir Ísland. Fyrirtækjunum er áfram skylt að mæla og setja fram árlega notkun á raforku og heitu vatni en fyrir Ísland hefur krafan um hámarksnotkun á gest verið felld niður. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að hitaveita á Íslandi er línuleg en kröfur Svansins hafa verið skrifaðar fyrir hringrænt kerfi þar sem hærra hitastig af heitu vatni sem fer út úr kerfinu er talið jákvætt fyrir umhverfið öfugt við Ísland. Þar að auki er sú staðreynd að yfirleitt er ekki hægt að aðskilja neysluvatn frá hitaveitu á reikningum orkufyrirtækja.

Íslensk fyrirtæki þurfa því öll að uppfylla sértækar orkukröfur í lið B viðmiðanna í stað þess að máta sig við lið A.

Vatn (kafli 5 og kafli 6)
Íslenskum fyrirtækjum er skylt að fylgjast með vatnsnotkun en ekki er lengur krafa um hámarks notkun á gest heldur er áhersla á sértækar vatnssparandi aðgerðir.

Úrgangur (kafli 7)
Kröfurnar fyrir úrgang voru uppfærðar og hertar. Hámarksmagn blandaðs úrgangs á gest er nú skyldukrafa, í stað þess að hægt sé að velja á milli að ná kröfunni um vatn eða úrgang.

Tillögurnar innihalda einnig nýjar og umfangsmiklar kröfur um matarsóun sem innihalda mælingar og greiningar, upplýsingar til gesta, þjálfun starfsfólks og ársskýrslur (O27-O28).

Breytingar um einnota hluti hafa verið hertar töluvert til dæmis með banni á notkun óendurvinnanlegs lífplasts í take-away (O29-O31).

Sjálfbær matvæli og drykkur (kafli 8)
Nýjum kröfum hefur verið bætt við sem snúa að notkun pálmaolíu og erfðabreyttra lífvera (GMO). Einnig hafa kröfurnar um lífrænan mat og grænmetisfæði verið uppfærðar og hertar. Matvöru úr nærsamfélaginu hefur verið lyft upp. Vatn í plastflöskum hefur verið bannað, en krafan var áður stigakrafa. Stigakröfur verið uppfærðar.

Efnavara (kafli 9)
Kröfurnar hafa verið uppfærðar og hertar. 100% efnavara sem notað er í daglegar ræstingar skulu vera umhverfisvottaðar. Efnavara sem notuð er fyrir utan daglegar ræstingar (sérþrif) og er notuð í töluverðu magni skal uppfylla kröfur um hættusetningar og innihaldsefni.

Innkaup (kafli 10)
Kröfurnar fyrir innkaup á umhverfisvottuðum vörum og þjónustu hafa verið uppfærðar, einfaldaðar og hertar. 100% af mjúkpappír og skristofupappír í nýjum kröfum skal vera umhverfisvottaður. Einnig skal 100% prentefnis vera framleitt hjá svansvottuðum prentsmiðjum. Með þessu er skjalabyrðin minnkuð og þar með einfölduð fyrir umsækjendur sem þurfa ekki að reikna út hlutfallið. Stig eru gefin fyrir umhverfisvottanir í öðrum innkaupum sem fyrr.

Fleiri fréttir