fbpx
18. apríl 2024

Opið umsagnarferli: Viðmið Svansins fyrir rekstur og viðhald bygginga

Nú gefst kostur á að gera athugasemdir við ný viðmið sem eru í þróun hjá Svaninum fyrir fyrirtæki sem sjá um rekstur og viðhald á bygginga (Nordic Swan Ecolabel Building operations). Svanurinn tekur mið af öllum lífsferlinum og setur strangar kröfur sem varða heilsu fólks og umhverfið.

Umsækjendur í þessum viðmiðaflokki geta bæði verið eigendur fasteigna, þ.e. einstaklingar, fyrirtæki eða sveitarfélög, eða byggingarverktakar sem sjá um rekstrar- og viðhaldsþjónustu. Hægt verður að sækja um vottun innan þessa viðmiðaflokks fyrir íbúðarhús, skrifstofu- og skólabyggingar.

Athugasemdir frá hagsmunaaðilum eru mikilvægar bæði fyrir gæði viðmiðanna og áhrif á markaðinn.

Hér má finna drög af viðmiðunum og bakgrunnsskjal með frekari upplýsingum. Athugasemdir skulu sendar inn hér eigi síðar en 5.júní 2024.

Helstu áherslur viðmiðanna

Uppfylla þarf strangar kröfur hvað varðar orku- og vatnsnotkun, byggingarúrgang, vöruúrval og fleira. Kröfurnar ýta undir betri auðlindanýtingu, lækkað kolefnisfótspor og aðlögun að breyttu loftslagi. Einnig hafa þær jákvæð áhrif á innivist bygginga og leggja upp með að auka líftíma þeirra og er því betra val fyrir umhverfið, loftslagið og íbúa byggingarinnar.

Svansvottunarferli er góður kostur fyrir þau sem setja sér metnaðarfull markmið um að vera meðal þeirra bestu í geiranum. Viðmiðin taka á öllum mikilvægustu umhverfisáhrifum þjónustunnar og varpa ljósi á þá þætti sem eru mikilvægir til að draga úr losun, bæta auðlindanýtingu og stuðla að sjálfbærari rekstri

Hér fyrir neðan eru þær kröfur sem við viljum að séu skoðaðar sérstaklega.

  • O8 Orkuaðgerðaráætlun. Kröfunni er skipt upp í þrjá hluta. Hluti A er skylda fyrir allar tegundir bygginga um lágmarkskröfu fyrir orkunotkun; ef umsækjandi fellur á lágmarkskröfunni er umsóknin metin ógild.
    Þeir leyfishafar sem uppfylla hluta A þurfa að fylgja annað hvort hluta B1, sem á við um byggingar sem uppfylla nú þegar viðunandi kröfur um orkunotkun eða hluta B2. Ef fylgja þarf hluta B2 þurfa byggingar að fara í orkugreiningu til að bæta orkunotkunina. Athugið að ekki krafan hefur ekki verið aðlöguð að íslenskum aðstæðum.
  • O9 Orkumæling og O23 vatnsmæling. Þessar tvær kröfur byggjast á mælingum og miða að bættum niðurstöðum mælinga til grundvallar fyrir stjórnun á orku- og vatnsnotkun.
  • O13 Áhættugreining loftslagsbreytinga og O14 Aðlögun að breyttu loftslagi. Gera þarf loftslagsáhættugreiningu fyrir byggingar í O13 og byggt á henni þarf að innleiða aðgerðir til að aðlaga bygginguna að loftslagsbreytingum. Krafan er skylda og miðast við að samræmast flokkunarkerfi ESB (EU taxonomy).
  • O17 Skráning á hættulegum efnum og O18 Mæling á PCB í innilofti. Þessar kröfur miða að því að tryggja þekkingu á hættulegum efnum eins og asbesti og PCB í byggingum með því að framkvæma umhverfisúttekt. Í O17 skal framkvæma slíka úttekt og ef úttektin leiðir í ljós skaðleg efni í byggingunni skal taka á þeim í viðhaldsáætluninni. Hafi fundist PCB í umhverfisúttekt skal samkvæmt O18 framkvæma PCB mælingar á innilofti og uppfylla viðmiðunarmörk.
  • O26 Vatnssparandi tækni. Svanurinn leggur til sérstakar aðgerðir sem eiga að stuðla að betri vatnsnýtingu sem skal uppfylla innan árs frá umsókn.
  • O27 Upplýsingar til notenda/íbúa og möguleiki á flokkun úrgangs. Krafan leggur áherslu á upplýsingar og aðstöðu til flokkun úrgangs til að stuðla að betri flokkun þeirra sem nota bygginguna.
  • O28 Viðgerðir og endurnotkun. Krafan beinist að því að efla viðgerðir og endurnotkun, með það að markmiði að bæta auðlindanýtingu.
  • O33 Umhverfisvottaðar vörur. Krafan snýst um að auka notkun umhverfisvottaðra vara, sem hafa uppfyllt strangar kröfur.

Hver geta sent inn umsögn?

Öll geta sent inn umsögn, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða stofnanir sem hafa áhuga á að taka þátt í þróunarvinnu viðmiða Svansins. Athugasemdir frá hagsmunaaðilum eru mikilvægur þáttur í vinnunni við að þróa ný viðmið og okkur þætti vænt um ef upplýsingum um opna umsagnarferlið væri dreift til þeirra sem það gæti varðað.

Hvernig á að skila inn umsögnum?

Best væri að fá umsögnina senda inn hér. Fyrir frekari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við svanurinn@ust.is

Hvað svo?

Þegar umsagnartímanum er lokið verða umsagnir teknar saman, þær metnar og ný endurskoðuð tillaga af viðmiðunum lögð fyrir umhverfismerkjaráð allra Norðurlandanna. Í kjölfarið mun Norræna umhverfismerkjaráðið taka ákvörðun um útgáfu viðmiðanna.

Allar umsagnir sem koma fram í þessu ferli og svör Svansins við þeim verða birtar í ákvörðun Norræna umhverfismerkjaráðsins sem verður aðgengileg á heimasíðu Svansins í tengslum við birtingu nýju útgáfu viðmiðanna.

Fleiri fréttir