Orkunýtni í byggingum
Á Íslandi búum við svo vel að vera með endurnýjanlega orku sem hitar upp húsin okkar og sér okkur fyrir rafmagni. Er þá ekki tilgangslaust að byggja byggingar með betri orkunýtni? Svarið er nei.
Um 90% bygginga (á Íslandi) eru hitaðar upp með jarðvarma og því eru loftslagsáhrifin vissulega mun minni heldur en annarrstaðar í heiminum þar sem jarðvarmi er með mun lægra kolefnisspor en aðrir orkugjafar. Hins vegar má sjá með nýlegri greiningu verkefnisins Byggjum grænni framtíð að 30% af allri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi í mannvirkjagerð er út af orkunotkun í rekstri bygginga.
Auðlind sem mikilvægt er að fara vel með
Heita vatnið okkar auðlind sem mikilvægt er að fara vel með, sérstaklega í ljósi þess að mikil fólksfjölgun hefur átt sér stað auk þess að fjöldi ferðamanna hefur aukist verulega á síðustu árum og horfur eru að sú þróun haldi áfram. Ef grípa þarf til frekari orkuöflunar getur það haft í för með sér hærri heitavatnskostnað hér á landi auk áhrifanna sem allar framkvæmdirnar, þar á meðal framkvæmdir í tengslum við orkuöflun, hafa á náttúru, auðlindir og losun gróðurhúsalofttegunda.
Orkunotkun Íslendinga er talsvert hærri þegar kemur að mannvirkjagerð en tíðkast í nágrannalöndum okkar og ESB-löndum vegna aukinna krafna í þeim löndum um orkunýtni. Þar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða sem minnka orkunotkunina en þar má helst nefna bætta einangrun glugga og veðurhjúps, notkun loftræsikerfa með varmaendurvinnslu og fleira.
Orkunotkun í Svansvottuðum byggingum
Í Svansvottuðum byggingum og endurbótum er gerð krafa um bætta orkunýtni og er lagt upp með að Svansvottaðar nýbyggingar séu með 20% betri orkunýtni en lágmarkskröfur byggingarreglugerðar leggja upp með. Þá hefur tíðkast að notast við vélræn loftræsikerfi, aukna einangrun í útveggjum og fleira. Einnig komu nýlega á markað Svansvottaðir gluggar en þeir eru með töluvert betra einangrunargildi eða U-gildi en hefðbundir gluggar og hefur það sýnt sig í orkugreiningum bygginga að varmatap er mest vegna lofskipta í gegnum glugga.
Það er því mikilvægt að huga að þessum aðgerðum þegar á að byggja hús hér á landi en það getur leitt til sparnaðar í rekstri bygginga og minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Heimilidir:
Orkunotkun íbúðabygginga á Íslandi, Náttúrufræðingurinn
Mat á kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði, gefið út af Byggjum grænni framtíð