Prentmiðlun fær Svansvottun
Síðastliðinn föstudag hlaut Prentmiðlun Svansvottun en Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.
Prentmiðlun var stofnað í byrjun árs 2008 og sér um prentþjónustu sem felur m.a. í sér hráefnispantanir, prentlýsingu, forvinnslu skjala, prentun á vottuðum litaprufum og framleiðslustýringu verka en framleiðsla bóka, tímarita og spila svo eitthvað sé nefnt fer að mestu fram erlendis. Almennt stóðst starfsemin kröfur Svansins, metnaður var settur í umsóknargögn og eiga aðstandendur vottunarinnar hrós skilið. Ferlar fyrirtækisins eru skýrir og sannfærandi og hefur fyrirtækið unnið hörðum höndum að breytingum í ferlum sínum og innkaupum til að uppfylla kröfur Svansins.
Mikilvægt er að koma skilaboðunum til neytenda að þeirra val skiptir höfuðmáli og að hægt er að velja vörur sem hafa afar slæm áhrif á umhverfið eða vörur þar sem áhrifin hafa verið minnkuð til muna.