fbpx
11. maí 2023

Rakaforvarnir í Svansvottuðum byggingum geta komið í veg fyrir tjón

Teikningar af nýjum Kársnesskóla

Fréttir bárust af því í vikunni að bæjarstjórn Kópavogs hafi samþykkt heimild til riftunar verksamnings við verktaka um byggingu á nýjum Kársnesskóla, m.a. vegna vandamála sem upp hafi komið vegna raka og myglu í byggingarefninu.

Nýr Kársnesskóli hefur verið í Svansvottunarferli frá því í október árið 2019 og hófust framkvæmdir haustið 2021.

Í Svansvottun felast meðal annars ríkar kröfur um rakaforvarnir. Svansvottunin gerir kröfu um að skipaður sé rakavarnarfulltrúi sem leggur fram ítarlega rakavarnaráætlun og tryggir að henni sé fylgt og sinni eftirliti á verkstað.

Rakavarnaráætlun fyrir umrætt verkefni er umfangsmikil, enda verkefnið stórt. Rakavarnarfulltrúi hefur fylgt áætluninni eftir og sinnt reglulegu eftirliti. Svanurinn hefur verið upplýstur í gegnum ferlið þegar frávik hafa orðið í rakaforvörnum og fengið í kjölfarið útlistun á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum. Rakavarnarfulltrúi hefur jafnt og þétt fylgt þessum aðgerðum eftir og gefa nýjustu mælingar til kynna að mótvægisaðgerðir hafi borið árangur.

Þau frávik sem komið hafa upp í þessu tiltekna verkefni sýna svart á hvítu mikilvægi rakavarnaeftirlits í byggingarframkvæmdum. Ef slíkt eftirlit hefði ekki verið til staðar í þessu tilfelli er óvíst hvort vandamálið hefði verið greint á byggingartíma með tilheyrandi efnahags-, heilsu- og umhverfistjóni.

Í Svansvottun felast einnig kröfur um innivist, innihaldsefni í byggingarefnum, orku, hljóðvist og gæðakerfi.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og hefur Umhverfisstofnun umsjón með merkinu hérlendis.

Fleiri fréttir