Sketsakeppni
Umhverfisstofnun stendur nú fyrir „sketsakeppni“ meðal framhaldskólanema um norræna umhverfismerkið Svaninn og umhverfismál.
Keppni þessari er ætlað að vekja ungt fólk til umhugsunar um umhverfismál auk þess að kynna merki Svansins fyrir framhaldsskólanemum. Þátttakendum eru gefnar frjálsar hendur með efnistök og þurfa ekki að vita neitt sérstakt um umhverfismál áður en hafist er handa. Gagnrýni og grín haldast gjarnan í hendur og því verður fróðlegt að sjá hvernig ungt fólk í dag sér þessi mál.
Keppnin fer þannig fram að allir framhaldsskólanemar geta sent inn atriði og velur þriggja manna dómnefnd siguratriðið þar úr. Dómnefnd er skipuð af Ara Eldjárn, uppistandara og handritshöfundi, Andra Snæ Magnasyni, rithöfundi og Elvu Rakel Jónsdóttur, umhverfisfræðingi. Gamansemi hefur mest vægi, enda þýðir enska orðið sketch stutt gamanatriði. Þá er einnig tekið tillit til þess að atriðið tengist umhverfismálum og að merki Svansins komi fyrir í mynd. Í verðlaun er iPod Touch fyrir höfunda siguratriðisins.
Skilafrestur á atriðum er til 31. október og þann 12. nóvember verður svo haldið lokahóf í Bíó Paradís þar sem öll innsend atriði verða sýnd á stóru tjaldi ásamt því að verðlaun verða veitt fyrir besta atriðið. Þá mun siguratriðið einnig verða kynnt fyrir alþjóð með sýningu í Kastljósi.