fbpx
6. júní 2022

Skýr metnaður fyrir Svansvottuð hótel

Nú hafa kröfurnar fyrir Svansvottuð hótel og aðra gististaði verið uppfærðar og kröfurnar hertar enn meira. Í þeim er meðal annars sett enn meira áhersla á að draga úr loftslagsáhrifum í rekstri og að velja umhverfisvænni matvæli. 

Í dag má finna yfir 400 Svansvottuð hótel og gististaði á Norðurlöndunum. Þessi fyrirtæki hafa nú þegar tekið stór skref til að draga úr orku- og vatnsnotkun, útiloka óþarfa og óæskilegar efnavörur á sama tíma sem þau hafa lagt áherslu á að auka framboð af umhverfisvænni matvælum og draga úr óflokkuðum úrgangi.

En Svanurinn lætur ekki þar við sitja þar sem hluti af loforði merkisins til neytenda er að Svansvottuð þjónusta sé meðal þeirra umhverfisvænstu á markaði. Til að geta uppfyllt þetta loforð eru viðmið Svansins reglulega skoðuð og uppfærð í samræmi við nýjustu þekkingu og þróun á markaðnum.

„Við endurskoðun og uppfærslu viðmiða er sett mikil áhersla á loftslagsmálin annars vegar og hringrásarhagkerfið hins vegar. Tvö málefni sem tengjast mjög sterkt og styðja við hvort annað. Svanurinn er og vill vera leiðarvísir fyrir fyrirtæki til að innleiða raunverulegar aðgerðir sem draga úr losun og bæta nýtingu auðlindanna okkar. Í nýju viðmiðunum fyrir hótel erum við að vinna með þessa þætti meðal annars með að gera skýrar kröfur um að minnka matarsóun og að banna ýmsar einnota vörur.“ segir Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins á Íslandi.

Eins og öll viðmið Svansins er horft til lífsferilsins og áhersluflokkar í þessum viðmiðum eru 1) umhverfisstjórnun, 2) sjálfbær matur og drykkur, 3) orka, 4) vatn, 5) efnanotkun, 6) innkaup af umhverfisvottuðu vörum og þjónustu og 7) úrgangur og endurvinnsla.

Eftirspurn eftir vottaðri gistiaðstöðu er ekki einungis frá almennum neytendum heldur er eftirspurn frá hinu opinbera sífellt að aukast. Þetta tengist líka stefnu stjórnvalda um að stofnanir fari í gegnum verkefnið Græn skref í ríkisrekstri, en þar er lögð áhersla á að við val á gististöðum og ráðstefnurými sé leitast við að velja vottaða þjónustu.

„Í dag eru innkaupaaðilar vel upplýstir og ýta áfram þróuninni og eftirspurninni eftir Svansvottaðri gistingu og ráðstefnurýmum. Svanurinn auðveldar þessum aðilum að velja rétt þar sem þeir losna þá við að rýna og yfirfara sjálfir umhverfisstarf hvers fyrirtækis fyrir sig. Við hjá Svaninum erum þá búin að rýna þetta fyrir þau með skýrum ramma og gegnsæjum kröfum sem allir geta kynnt sér.“ segir Birgitta Stefánsdóttir sérfræðingur Svansins.

Svansvottað hótel eða gististaður:

  • Lágmarkar orkunotkun og losun CO2
  • Notar ekki jarðefnaeldsneyti til upphitunar
  • Framkvæmir orkusparandi aðgerðir sem draga úr kolefnisspori
  • Lágmarkar vatnsnotkun
  • Framkvæmir aðgerðir til að draga úr vatnsnotkun
  • Sérsafnar úrgangi á þann hátt sem hámarkar endurnotkunar- og endurvinnslumöguleika
  • Vinnur markvisst að því að draga úr matarsóun
  • Notar ekki einnota hluti í daglegri framreiðslu matar
  • Notar umhverfisvænni einnota hluti í take-away og veisluþjónustu
  • Býður upp á mat með minni umhverfisáhrif, svo sem grænkerafæði, matvæli úr nærumhverfi og sniðgengur tegundir í útrýmingarhættu
  • Notast við mikið úrval af lífrænt vottuðum matvælum og drykkjum
  • Notar umhverfisvottaðar vörur í daglegar ræstingar, uppþvott og þvott og lágmarkar óæskileg efni
  • Kaupir inn umhverfisvottaðar vörur og þjónustu þar sem það er hægt
  • Þjálfar og virkjar starfsfólk í innra umhverfisstarfi

Hér má finna frekari upplýsingar ásamt viðmiðunum fyrir hótel og aðra gististaði. 

Fleiri fréttir