Svansdagar hefjast í dag!

Svansdagar 2025 hefjast í dag, 6. október, og standa yfir til 12. október. Markmiðið með Svansdögunum er fyrst og fremst að auðvelda fólki að finna vörur og þjónustu vottaðar af norræna umhverfismerkinu Svaninum. Markmiðið er einnig að vekja athygli á því fyrir hvað Svansvottunin stendur.
Neytendakönnun sem framkvæmd var fyrir hönd Svansins árið 2024 sýndi að
95% Íslendinga þekkja Svansmerkið
80% treysta því að Svansvottuð vara sé góður kostur fyrir umhverfið
Sama könnun leiddi í ljós að
75% finnst krefjast meiri fyrirhafnar að finna umhverfisvænar vörur
82% eru þreytt á að vörur séu markaðssettar sem „grænar“ án góðra útskýringa
Svansdagar eru svar við þessu ákalli – vika tileinkuð því að gera umhverfisvænni innkaup einfaldari og áreiðanlegri.
Á heimasíðu Svansdaga má finna lista yfir verslanir og þjónustuaðila á Íslandi sem bjóða upp á Svansvottaðar vörur og þjónustu. Á vef Svansins má einnig fræðast um hvað vottunin felur í sér og hvernig fyrirtæki geta fengið vottun.
Svansdagar eru hvatning til neytenda að velja vörur sem standast strangar umhverfis- og gæðakröfur – og áminning um að litlar ákvarðanir í dag geta haft stór áhrif á umhverfið til framtíðar.
Nánar um Svansmerkið:
Svansmerkið hefur verið leiðandi umhverfismerki á Norðurlöndum í yfir þrjá áratugi og nær vottunin yfir 60 ólíka vöruflokka – allt frá hreinsiefnum og snyrtivörum til byggingarefna og bygginga. Vottunin tryggir að neikvæð áhrif á heilsu og umhverfi séu í algjöru lágmarki og að varan eða þjónustan uppfylli jafnframt strangar gæðakröfur.
Hvað eru margar Svansvottaðar vörur á þínu heimili?
Fylgist með á samfélagsmiðlum Svansins til að sjá hverju þið gætuð bætt við.
Fleiri fréttir

Svansdagar hefjast í dag!

Leikskólinn Litli Jörfi fær Svansleyfi sem tryggir heilnæma innivist fyrir yngstu kynslóðina

Jáverk fær Svansvottun fyrir eitt af mörgum fjölbýlishúsaverkefnum í vottunarferli
