fbpx
23. júní 2022

Svansleyfi afhent í Bláskógabyggð

Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar, Sigrún Melax gæðastjóri JÁVERK, Guðrún Lilja Kristinsdóttir sérfræðingur Svansins, Gylfi Gíslason framkvæmdastjóri JÁVERK og Oddný Mjöll Arnardóttir eigendur hússins.

Í dag afhenti Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar JÁVERK Svansleyfi fyrir vottun á einbýlishús við Kjarnholt II í Bláskógabyggð.

Hrólfur Karl Cela hjá Basalt arkitektum sá um hönnun hússins sem þykir sérstaklega vel heppnuð. Húsið er á einni hæð, með torfþaki og var notað Svansvottað timbur frá Kebony í klæðningu þess og pall.

Húsið býr svo vel að því að vera með eigin borholu, heitt neysluvatn kemur að öllu leyti úr heimahitaveitunni og öll orka til upphitunar hússins kemur þaðan. Þetta er í fyrsta skipti sem Svanurinn veitir stig fyrir slíkt verkefni hérlendis.

JÁVERK ehf. hefur víðtæka reynslu af Svansvottunarferlinu en fyrirtækið hafði umsjón með Svansvottun á miðbæ Selfoss sem lauk fyrr á þessu ári. Kjarnholt II er þó fyrsta verkefnið sem JÁVERK kemur að sem bæði umsjónaraðilar og leyfishafar en fyrirtækið hefur sett sér þá metnaðarfullu stefnu að Svansvotta öll ný eigin verkefni sem hlotið geta vottun samkvæmt staðlinum.

Við afhendingu vottunarinnar sagði Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar: „Það eru gríðarlega mörg tækifæri sem liggja innan byggingargeirans til þess að gera betur í umhverfismálum og því er mikilvægt þegar fyrirtæki stígur skrefið til fulls og fer í gegnum strangt ferli Svansvottunar. Í þessu tiltekna verkefni var einstaklega vel var haldið utan um vottunina og skýr gagnaskil og samskipti við umsjónaraðila JÁVERKS sem eiga hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem var lögð í verkið. JÁVERK hefur sett tóninn fyrir byggingageirann með frábæru fordæmi með því að hafa skýra framtíðarstefnu um umhverfisvottaðar byggingar.

Sigrún Melax, gæðastjóri JÁVERK: „Það er tímamótadagur í dag þegar JÁVERK fær Svansleyfi afhent. Við erum búin að vera að vera umsjónaraðilar fyrir svansvottuð verkefni síðan 2019 þegar framkvæmdir hófust í miðbæ Selfoss en í dag ljúkum við verki þar sem við erum einnig leyfishafi. Það er mjög ánægjulegt að fá Svansleyfi sjálf og hlökkum við til áframhaldandi samvinnu við Svaninn í verkefnum sem framundan eru hjá okkur.“

Markmið Svansvottunar

Meginmarkmið vottunarinnar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu á framkvæmdartíma sem og þeirra sem nota bygginguna eftir að hún er tekin í notkun. Kröfurnar ná einnig til gæðastjórnunar á verkstað, en skýr stýring á umhverfisþáttum og gæðastjórnun helst oft í hendur.

Umsjónaraðili Svansins

Umhverfisstofnun er umsjónaraðili Svansvottunar á Íslandi, en Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem hefur það meginmarkmið að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfis- og heilsusamlegri kosti.

Fleiri fréttir