fbpx
25. október 2010

Svansprent fær Svansvottun

Prentsmiðjan Svansprent hefur hlotið vottun norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Strangar kröfur Svansins tryggja að starfssemi Svansprents er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun á neikvæðum umhverfisáhrifum. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, veitti leyfið þann 24. nóvember.

Um Svansprent
Prentsmiðjan Svansprent var stofnuð árið 1967 og á því langa sögu að baki. Stofnendur fyrirtækisins voru hjónin Jón Svan Sigurðsson og Þuríður Ólafsdóttir og hefur fyrirtækið verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi. Starfar Jón Svan enn og því starfa þrír ættliðir hjá fyrirtækinu. Fyrstu sex árin var starfsemin í Skeifunni 3 en 1973 flutti fyrirtækið í eigið húsnæði að Auðbrekku 12 í Kópavogi. Fljótlega eftir flutninginn var byggt við húsnæðið, því umsvifin jukust jafnt og þétt.

Í fyrstu var einungis prentað á eina einlita prentvél og starfsliðið var fámennt en lengi vel störfuðu aðeins um 10 manns hjá fyrirtækinu. Í dag starfa um 30 manns hjá Svansprenti og hefur prentsmiðjan upp á að bjóða fullkominn tækjakost, bæði fyrir stafræna- og offsetprentun. Styrkur Svansprents hefur ætíð verið traust og gott starfsfólk með langan starfsaldur. Svansprent hefur lagt ríka áherslu á að veita viðskiptavinum sínum persónulega þjónustu, með sem fæstum milliliðum.

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur miðast að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá öllu prentferlinu, allt frá uppruna hráefna til meðhöndlun úrgangs.

  • 95% efna til prentunar eða hreinsunar véla þurfa að vera umhverfismerktar eða sambærilegar
  • Ekki má nota efni sem eru hættuleg umhverfinu eða heilsu manna
  • Meðhöndlun efnaúrgangs þarf að vera ábyrg og almenn flokkun skýr
  • Mikil áhersla er lögð á að lágmarka úrgangsmyndum og afskurð
  • Í það minnsta 90% af þyngd Svansmerkts prentgrips skal vera umhverfismerktur pappír eða sambærilegur

Norræna umhverfismerkið Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta 65 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.

Fleiri fréttir