fbpx
21. desember 2017

Svansvottað og kolefnisjafnað Farfuglaheimili

Farfuglaheimilið í Borgarnesi fékk afhent Svansleyfi þann 19. desember s.l. við hátíðlega athöfn, en það voru Eva Hlín Alfreðsdóttir, móttökustjóri Farfuglaheimilisins í Borgarnesi og Þorsteinn Jóhannesson framkvæmdarstjóri Farfugla sem tóku við leyfinu af forstjóra Umhverfisstofnunar. Heimilið er það fjórða sem Farfuglar fá Svansvottun fyrir. Með leyfinu hafa öll Farfuglaheimilin í eigu samtakanna hlotið umhverfisvottun Svansins. Einnig hafa Farfuglar farið fram með góðu fordæmi og kolefnisjafnað heimilin fjögur sem þeir reka. Ferðaþjónustan stækkar hratt og því er mikilvægt að fyrirtæki sýni ábyrgð og dragi úr umhverfisáhrifum sinnar starfsemi eins mikið og hægt er. Neytendateymi Umhverfisstofnunar segir að Farfuglar eigi hrós skilið fyrir það starf sem þar er unnið, en umhverfismál séu höfð að leiðarljósi í öllum rekstri samtakanna. Þá sé umhverfisstarfinu miðlað virkt til viðskiptavina og starfsfólks og boðskapnum þannig komið áfram.

Leyfið er það 37unda á Íslandi og það tólfta í flokki hótela, veitingastaða og ráðstefnurekstrar. Við Svansvottun á gististöðum er lögð áhersla á að lágmarka orkunotkun, úrgangsmagn og vatnsnotkun auk þess sem mikil áhersla er á vistvæn innkaup efnavöru og matvæla.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.

Á myndinni eru forráðamenn Farfugla með vottunarviðurkenninguna ásamt Kristínu Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar og Birgittu Stefánsdóttur, sérfræðingi í neytendateymi Umnhverfisstofnunar.

Fleiri fréttir