fbpx
30. apríl 2021

Svansvottuð nýbygging í Þingeyjarsveit

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Dagbjört Jónsdóttir og Árni Grétar Árnason

Í dag fengu FaktaBygg afhent leyfi fyrir Svansvottað parhús í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsveit. Nýbyggingin er sú fyrsta utan höfuðborgarsvæðisins sem hlýtur Svansvottun, en fram að þessu hafa klárast tvö vottuð verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Árni Grétar Árnason framkvæmdastjóri FaktaBygg Ísland tók við leyfinu af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra við litla hátíðlega athöfn í dag.

Parhúsið verður í eigu Þingeyjarsveitar sem sýnir hér prýðilegt fordæmi með fjárfestingu í grænni uppbyggingu. Eins og fram kom á Umhverfisþingi í vikunni gegna fjárfestingar í sjálfbærum verkefnum lykilhlutverki í að ná samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

Þegar byggt er eftir viðmiðum Svansins er áherslan fyrst og fremst lögð á að minnka neikvæð áhrif á umhverfið, en byggingariðnaðurinn er sá iðnaður sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum á heimsvísu. Kröfur sem draga úr notkun skaðlegra efna í byggingunni tryggja líka minna umhverfisálag og ekki síður skapar það betri innivist fyrir íbúa og aðra notendur byggingarinnar.

Í stuttu máli um Svansvottaða nýbyggingu:

  • Strangar kröfur um innihald skaðlegra efna í bygginga- og efnavöru
  • Góð innivist tryggð með góðri loftræsingu og hljóðvist
  • Hagkvæm orkunotkun með áherslu á orkusparnað
  • Gæðastjórnun tryggð í byggingarferlinu
  • Rekstrar- og viðhaldsáætlun til staðar fyrir líftíma byggingarinnar

Parhúsið í Ljósavatnsskarði er einingahús úr við úr sjálfbærri skógrækt, en Svanurinn gerir kröfu um sjálfbærnivottun viðar auk þess sem búið er að útiloka notkun viðartegunda sem taldar eru í útrýmingarhættu. Utanumhald verkefnisins að hálfu FaktaBygg hefur verið til fyrirmyndar og eftirlit fyrirtækisins með innri ferlum sömuleiðis, má þar nefna eftirfylgni rakavarnarplans og úrgangsmeðhöndlunar á meðan á byggingartímanum stóð. Íbúðirnar eru útbúnar með loftskiptikerfi sem tryggir minni orkunotkun yfir líftíma hússins.

Fleiri fréttir