fbpx
30. mars 2023

Svanurinn er hvati til að gera betur

Haukur Baldvinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Málningar

Fyrirtækið Málning hf. býður upp á fjölmargar Svansvottaðar vörur, en fyrirtækið hóf vottunarferli sinna vara árið 2018. Við spurðum Hauk Baldvinsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Málningar, út í þeirra reynslu af Svansvottunarferlinu.

Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar vöru/þjónustu?

Árið 1991 kynnti Málning til leiks umhverfisvæna innimálningu merkta undir heitinu „0% lífræn leysiefni“ og braut þannig blað í íslenskri málningarsögu.

Frá þeim tíma hafði mikið vatn runnið til sjávar og í stað þess að hvert fyrirtæki fyrir sig framleiddi eftir eigin umhverfiskröfum fóru samtök og stofnanir að bjóða upp á eigin umhverfisvottanir. Þar má meðal annars nefna Svaninn á Norðurlöndum, Bláa engilinn í Þýskalandi og Blóm Evrópusambandsins. Þessar vottanir gera það að verkum að að neytandinn fær í hendurnar umhverfisvænar vöru sem hægt er að treysta þ.e.a.s þær eru vottaðar af hlutlausum aðila. Engu að síður getur aðferðarfræði og kröfur hvers ferlis litið mismunandi út.

Eftir að við hjá Málningu kynntum okkur ferlið sem því fylgir að sækja um vottun fyrir framleiðsluvörur okkar fengum við dygga aðstoð Umhverfisstofnunar við umsóknina og aðlögun umhverfiskrafna. Árið 2018 hlaut Málning hf svo vottun Norræna umhverfismerkisins og leyfi til að merkja tæplega 30 vörur með merki Svansins.

Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?

Þegar að hver aðili fyrir sig setur sér sjálfur viðmið um hvað skuli kalla umhverfisvæna vöru ríkir ávallt viss óvissa um gagnsemi þeirra viðmiða og hversu umhverfisvæn varan í raun og veru er. Einn helsti kosturinn fyrir okkur varðandi Svansvottun hefur verið að fá óháðan aðila til að setja viðmið fyrir okkur sem málningarfyrirtæki hvaða skilyrði þurfi að uppfylla svo hægt sé að kalla hana umhverfisvæna. Þannig höfum við fengið viðurkenningu á okkar vörum sem uppfylla slík skilyrði og einnig fengið ábendingar varðandi það sem betur mætti fara. Við gerum svo okkar til þess að betrumbæta og þróa okkar vörur í takt við þær kröfur sem gerðar eru til okkar. Með umhverfisvottun sem almenningur treystir er hann einnig líklegri til að velja umhverfisvottaða vöru fram yfir aðrar vörur sem ekki eru umhverfisvottaðar.

Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?

Já ég mæli með því að sækja um Svansvottun. Ferlið hefur verið okkur hjá Málningu lærdómsríkt, það hefur gefið okkur betri yfirsýn yfir hráefnin sem við erum að nota sem og til þeirra vara sem við framleiðum. En það sem stendur uppúr eftir að hafa farið í gegnum ferlið er hvatinn til þess að gera betur og þróa vörur sem hafa reynst vel í áratugi.

Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?

Svanurinn uppfærir kröfur sínar reglulega til að vera ávallt í fararbroddi í umhverfismálum, almennt hafa þessar uppfærslur ekki reynt mikið á leyfishafa þó með einhverjum undantekningum. Núna er hins vegar komið að heildstæðri uppfærslu á kröfunum sem gerðar eru til málningar og mun vera áhugavert að sjá hverjar loka kröfurnar verða sem og að takast á við þær áskoranir sem þeim fylgir.

Fleiri fréttir