15. október 2025

Þarfaþing hlýtur sitt fyrsta Svansleyfi fyrir nýbyggingu að Áshamri 50

Verktakinn Þarfaþing ehf. hefur nú hlotið sitt fyrsta Svansleyfi fyrir nýbyggingarverkefni í Hafnarfirðinum. Fyrirtækið hefur áður tekið þátt í Svansvottuðu verkefni sem aðalverktaki, en þetta er í fyrsta sinn sem það er leyfishafinn en samkvæmt kröfum Svansins þá ber leyfishafinn ábyrgð á að öllum kröfunum sé framfylgt.

Þetta verkefni er annað verkefnið á Íslandi sem hlýtur Svansvottun samkvæmt nýbyggingarviðmiðunum, útgáfu 4 – en það er nýjasta útgáfa viðmiðanna sem felur í sér hertar og metnaðarfyllri kröfur til byggingarefna, orkunýtni, loftgæða og heildaráhrifa bygginga á umhverfið. Þarfaþing voru með fyrstu fyrirtækjum til að sækja um í þessari útgáfu, þrátt fyrir að enn hafi staðið til boða að sækja um í útgáfu 3, sem sýnir mikinn metnað, framsýni og hugsjón þegar kemur að umhverfismálum og gæðum bygginga.

„Þarfaþing sýnir með þessari ákvörðun að fyrirtækið lítur á sjálfbærni og gæði sem samofna þætti í allri sinni starfsemi,“ segir Bergþóra Góa Kvaran sérfræðingur hjá Svaninum á Íslandi. „Þetta er ekki aðeins umhverfisvænt skref, heldur einnig stefnumarkandi ákvörðun sem eykur faglegt forskot og dýrmæta reynslu innan fyrirtækisins.“

Gæði í Svansvottuðum íbúðum

Svanurinn leggur jafnframt mikla áherslu á gæði bygginga – ekki síst með tilliti til dagsbirtu og innivistar. Rannsóknir sýna að betri dagsbirta hefur jákvæð áhrif á líðan og heilsu íbúa, og hefur sú krafa, meðal annars, verið hert í útgáfu 4. Sjá nánar í fréttinni: Bætt dagsbirta í Svansvottuðum byggingum.

Svansvottuðum íbúðum fer sífelt fjölgandi og er nú hægt að finna slíkar víðsvegar um landið en alls eru núna meira en 400 íbúðir Svanvottaðar. Þetta er því í fyrsta skipti sem að það er raunverulegur möguleiki fyrir kaupendur að velja sér umhverfisvottað húsnæði. Lang flestar íbúðirnar eru staðsettar í Hafnarfirði eða um 57% af þeim íbúðum sem hafa fengið vottun en sveitarfélagið hefur veitt afslætti af lóða- og gatnagerðargjöldum sem hefur sýnt sig sem virkilega góður hvati þegar kemur að umhverfisvottuðum byggingum.

Með þessu fyrsta Svansleyfi sínu staðfestir Þarfaþing að umhverfismál, gæði og fagmennska séu leiðarljós í allri starfsemi fyrirtækisins – og markar þetta án efa aðeins upphafið að fleiri grænum og gæðamiklum verkefnum á vegum þess.

Fleiri fréttir