fbpx
22. febrúar 2016

Þrítugasta Svansleyfið veitt á Íslandi: Prenttækni fær Svansvottun

Prenttækni hefur hlotið vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Prenttækni var formlega afhent leyfisskjalið við hátíðlega athöfn síðastliðinn föstudag. Séra Vigfús Þór Árnason, bróðir annars stofnanda fyrirtækisins, fór yfir sögu fyrirtækisins en fyrirtækið var stofnað 1974 af Gunnari Magga Árnasyni og Stefaníu Flosadóttur en Gunnar lést árið 2003. Nú starfa sjö manns hjá fyrirtækinu sem hefur verið lengst af í Kópavoginum. Margrét Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Prenttækni tók við Svansleyfinu úr hendi Kristínar Lindu Árnadóttur forstjóra Umhverfisstofnunar.

Prenttækni hlýtur þrítugasta Svansleyfið sem gefið hefur verið út á Íslandi og bætist því í ört stækkandi hóp Svansmerktra fyrirtækja. Sífellt auðveldara verður því fyrir íslenska neytendur að velja umhverfismerkta vöru og þjónustu. Starfsemi Prenttækni stóðst kröfur Svansins og eiga aðstandendur vottunarinnar hrós skilið, m.a. fyrir sérstaklega góðar merkingar á flokkunarstöðum og tiltekt í efnamálum. Umsóknargögnin voru mjög aðgengileg og bera þess merki að vel sé haldið utan um bókhald fyrirtækisins en starfsfólk prentsmiðjunnar er vant að vinna með gæðavottunarkerfi og ferlar fyrirtækisins eru bæði skýrir og sannfærandi.

Norræna umhverfismerkið Svanurinn
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta yfir 60 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur miðast að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá öllu prentferlinu, allt frá uppruna hráefna til meðhöndlun úrgangs:

  • Hvatt til þess að valdar séu umhverfismerktar vörur og þjónusta í innkaupum
  • Kröfur varðandi pappír og efnanotkun eru strangar og uppfærðar reglulega
  • Mikil áhersla er lögð á að lágmarka úrgangsmyndum og afskurðGerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að stýra umhverfisstarfi
  • Ekki er heimilt að nota efni sem eru hættuleg umhverfinu eða heilsu manna
  • Meðhöndlun efnaúrgangs þarf að vera ábyrg og almenn flokkun skýr
  • Mikilvægt er að koma skilaboðunum til neytenda að þeirra val skiptir höfuðmáli; hægt er að velja vörur sem hafa afar slæm áhrif á umhverfið eða vörur þar sem áhrifin hafa verið minnkuð til muna.

Þannig auðveldar Svansmerkið neytendum að vita hvaða vörur það eru.

Fleiri fréttir