Umhverfisráðherra fyrsti kúnninn á Svansvottuðum veitingastað
Á myndinni tekur Sara Hjörleifsdóttir, eigandi Sjávarpakkhússins, við Svansleyfinu úr hendi ráðherra ásamt starfsfólki Sjávarpakkhússins.
Sjávarpakkhúsið í Stykkishólmi fékk sl. föstudag afhent Svansleyfi frá Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra. Eftir afhendingu varð ráðherra fyrsti gesturinn á hinum nývottaða veitingastað þar sem hann gæddi sér á sjávarfangi úr Breiðafirði.
Sjávarpakkhúsið er fyrsta fyrirtækið á Snæfellsnesi sem hlýtur vottun Svansins, en veitingastaðurinn sérhæfir sig í fersku fiskmeti úr nærumhverfinu. Svanurinn leggur meðal annars áherslu á sjálfbæran uppruna matvæla, staðbundin matvæli og að veitingastaðir vinni markvisst að því að draga úr matarsóun. Veitingastaðurinn er staðsettur í gömlum beitingaskúr við höfnina í Stykkishólmi. Snæfellsnes er einnig umhverfisvottað samfélag samkvæmt stöðlum Earth Check og er mikilvægt að fyrirtæki á svæðinu taki virkan þátt í umhverfisímynd svæðisins og sýni fram á árangur í umhverfismálum með óháðri vottun þriðja aðila.
Umhverfisstofnun óskar Sjávarpakkhúsinu innilega til hamingju með árangurinn. Við hlökkum til að vinna með Hólmurum að sjálfbærara samfélagi.
15. október 2025
9. október 2025
9. október 2025
8. október 2025
