Verkland hlýtur sitt fyrsta Svansleyfi fyrir byggingar í Áshamri

Byggingarverktakafyrirtækið Verkland hefur hlotið sitt fyrsta Svansleyfi fyrir fjölbýlishús við Áshamar 42–48 í Hafnarfirði. Um er að ræða mikilvægan áfanga fyrir fyrirtækið sem hefur markvisst unnið að því að bæta umhverfisáhrif framkvæmda sinna en þeir vinna einnig að því að Svansvotta fjölbýlishús að Baughamri samkvæmt nýjum byggingarviðmiðum Svansins.
Verkland hefur sýnt mikinn metnað í umhverfismálum og skarað fram úr í ýmsum þáttum vottunarferlisins. Sérstaklega má nefna úrgangsflokkun, þar sem fyrirtækið hefur náð einstaklega góðum árangri og sýnt fram á mjög háa hlutfallslega nýtingu og endurvinnslu byggingarúrgangs. Gaman er að segja frá því að fyrirtækið fjárfesti til að mynda í moltuvél til að vinna lífrænan úrgang á staðnum, en markmiðið er að nýta moltuna sem áburð á lóðina í kringum byggingarnar og þannig loka hringrásinni á umhverfisvænan hátt.
Verkefnið er staðsett í nýju íbúðarhverfi í Hafnarfirði, þar sem sífellt fleiri verkefni eru unnin samkvæmt vistvænum stöðlum. Áshamar 42–48 er annað verkefnið í hverfinu sem hlýtur Svansvottun, en fleiri eru þegar í vinnslu.
Hafnarfjarðarbær hefur stutt við þessa þróun með því að veita afslætti af lóðum og gatnagerðargjöldum fyrir umhverfisvottaðar byggingarframkvæmdir. Slík hvatning hefur reynst mikilvæg til að flýta fyrir sjálfbærri þróun í byggingariðnaði en „afslátturinn kemur til móts við þann kostnað sem felst í Svansvottun fyrir leyfishafa“ segir Ingi Már Ljótsson fyrir hönd Verklands. Með þessu er stuðlað að sjálfbæru hverfi þar sem hugsað er heildrænt um gæði bygginga – meðal annars með kröfum um rakavarnir, dagsbirtu, loftgæði og fleiri þætti sem stuðla að heilnæmum byggingum.
Með þessari fyrstu vottun stígur Verkland stórt skref í átt að sjálfbærari starfsemi og sýnir að umhverfisvottaðar byggingar eru bæði raunhæfar og framkvæmanlegar fyrir íslenskan byggingargeira.
Hér má finna íbúðir til sölu á vegum Verklands