fbpx

Hvað er Svansvottuð íbúð?

Svansvottaðar íbúðir eru betri fyrir umhverfið og heilsu fólks. Bæði á meðan þær eru í byggingu og eftir að íbúar flytja inn.

Markmið Svansvottunar eru að:

  • Draga úr umhverfisáhrifum bygginga
  • Sporna við hnattrænni hlýnun
  • Vernda heilsu fólks á framkvæmdartíma og íbúanna í framtíðinni

Hvað þýðir Svansvottun fyrir kaupendur?

GÆÐI – GÓÐ INNIVIST – UMHVERFISHEILSA

Rakaforvarnir

Rakaforvarnir eru mikilvægur þáttur í Svansvottunarferlinu. Verktakarnir þurfa að setja upp rakavarnaráætlun fyrir allt framkvæmdarferlið. Það er til að tryggja að byggingarefni séu geymd við réttar aðstæður, að rakastig byggingarefna sé innan ákveðinna marka áður en það er lokað inni o.s.frv.

Orkusparnaður

Svansvottuð bygging þarf að nota lágmarks orku. Til dæmis með heimilistækjum í góðum orkuflokki, að ljós lýsi ekki að óþörfu og að það sé betri heildar orkunotkun en reglugerðir gera kröfu um.

Algengt er að notast sé við vélræna loftræsingu eða loftskiptakerfi til að byggingin nái að vera undir þeim orkuviðmiðum sem sett eru fram. Þessi kerfi spara ekki einungis orku heldur stuðla einnig að betra innilofti og geta dregið úr hættu á rakamyndun innandyra.

Bjartar íbúðir

Kröfur eru settar fram varðandi dagsbirtu sem tryggir það að íverurými byggingarinnar eru björt. Dagsbirta hefur mikil áhrif á innivist og getur haft jákvæð áhrif á andlega heilsu íbúa.

Minna af eiturefnum

Strangar kröfur eru settar um val byggingarefna. Það þýðir að í Svansvottuðum íbúðum er mjög takmörkuð notkun á byggingarefnum sem hafa skaðleg áhrif á heilsu. Notkun byggingarefna sem hafa hormónaraskandi áhrif eða geta valdið krabbameini eru bönnuð.

Hvernig á að markaðssetja Svansvottaðar íbúðir?

Algengt er að byggingar fari í sölu áður en Svansvottunarferlinu er formlega lokið.

Íbúð eða bygging er ekki Svansvottuð nema:

  • Framkvæmdum sé lokið
  • Öllum gögnum hafi verið skilað inn
  • Gögnin hafi verið samþykkt

Þessu ferli lýkur almennt 3 mánuðum eftir verklok.

Þá er Svansleyfið gefið út. Þá má segja að íbúð eða bygging sé Svansvottuð. Áður en leyfið hefur verið afhent má ekki segja að byggingin sé Svansvottuð afþví að hún einfaldlega er það ekki.

Það sama gildir um notkun Svansmerkisins. Það má ekki nota merkið á vörur, þjónustu eða bygginar sem ekki hafa klárað vottunarferlið.

Hins vegar má segja að bygging eða íbúð sé í „Svansvottunarferli“ þar til ferlinu er lokið og íbúðin er komin með stimpilinn. Þangað til má einnig notast við slagorð eins og:

„Lægri orkunotkun – lægri rekstrarkostnaður“

„Heilsusamlegra inniloft“

„Minna af skaðlegum efnum“

„Gæðatrygging“

„Minni hætta á raka og myglu“

„Bjartar íbúðir“

Græn íbúðalán

Græn íbúðarlán eru veitt hjá nokkrum lánastofnunum fyrir þá sem kaupa umhverfisvottað húsnæði.

Fyrir græn íbúðarlán eru ýmist lántökugjöld felld niður og jafnvel boðið uppá betri lánakjör.