
Dagvöruverslanir
Svansvottun dagvöruverslana er mikilvægur hlekkur í að auka umhverfisvitund neytenda með að ýta undir sýnileika umhverfisvænna kosta. Flestir neytendur heimsækja dagvöruverslanir mjög reglulega og því geta áherslur verslana skilað sér í því að fleiri velji umhverfisvottaðar vörur og lífræn matvæli. Svansvottun er markviss leið til að tryggja árangur í umhverfismálum og skapa sér sérstöðu á samkeppnismarkaði.
Viðmiðin
Viðmiðin byggjast á tilteknum fjölda skyldukrafna ásamt stigakerfi þar sem þarf að ná lágmarksfjölda stiga til að hljóta vottunina. Ef verslunin stenst allar skyldukröfur og nær lágmarks fjölda stiga hún hlotið Svansvottun. Í viðmiðum Svansins fyrir dagvöruverslanir er áhersla lögð á eftirfarandi atriði:
- Úrval af umhverfisvottuðum vörum í verslun
- Úrval af lífrænt vottuðum matvælum í verslun
- Matarsóun og aðgerðir til að draga úr matarsóun
- Lágmarka orkunotkun og innleiða orkusparandi aðgerðir
- Lágmarka magn blandaðs úrgangs
Gjaldskrá
Kostnaður við Svansvottun skiptist í umsóknargjald sem greitt er þegar sótt er um og árgjald sem er greitt árlega eftir að fyrirtækið fær vottun.
Umsóknargjald:
- 165.000 fyrir lítil fyrirtæki (minna en 10 ársverk og heildarveltu undir 200. m.kr.)
- 330.000 fyrir stærri fyrirtæki
Árgjald:
- 250.000 fyrir hverja verslun allt að 5 verslunum
- 125.000 fyrir hverja verslun þegar fjöldi þeirra er 6-14
- 67.500 fyrir hverja verslun umfram 15 verslanir
Tengiliður

Birgitta Stefánsdóttir
Sérfræðingur
birgittas@ust.is
591 2000
Reynslusaga

Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir
Markaðsstjóri Krónunnar
Af hverju völduð þið að Svansvotta tvær af verslunum Krónunnar?
Við í Krónunni höfum lagt mikla áherslu á umhverfismál síðustu ár og þegar við kynntum okkur viðmið Svansvottunar fyrir matvöruverslanir voru þau í takt við okkar markmið. Vottunin setur meðal annars viðmið í vöruúrvali lífrænna og umhverfisvottaðra vara, lágmörkun á orkunotkun, flokkun á sorpi, lágmörkun matarsóunar og á umhverfisvænni rekstrarvöru.
Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?
Svansvottunin bæði setur okkur viðmið og veitir okkur aðhald, en á sama tíma er svansmerkið opinbert norrænt umhverfismerki sem fólk þekkir og treystir. Viðskiptavinir okkar geta því treyst því að við séum að fara eftir ströngum kröfum Svansvottunarinnar í okkar rekstri.
Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?
Já, hiklaust. Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt ferli fyrir okkur og við höfum nú bæði skýrari markmið til að vinna að og höldum betur utan um þær upplýsingar sem við viljum fylgjast með.
Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?
Við ætlum okkur að svansvotta allar verslanir okkar og viðhalda vottuninni. Við vitum að við þurfum að vera á tánum og tilbúin að gera enn betur því viðmiðin geta breyst og með breyttu umhverfi verða enn strangari kröfur gerðar til okkar til að viðhalda vottuninni. Viðmiðin verða hins vegar alltaf raunhæf þar sem þau eru sérsniðin fyrir okkar markað.