fbpx

Hótel, veitingarekstur og ráðstefnurými

Svansvottun er markviss leið til að tryggja árangur í umhverfismálum og skapa sér sérstöðu á samkeppnismarkaði. Sú ímyndarsköpun sem fylgir Svansvottun getur laðað að sér ekki einungis nýjan kúnnahóp heldur einnig starfsfólk sem hefur metnað fyrir umhverfismálum. Með að notast við Svaninn eykst skilningur á umhverfisþáttum rekstursins sem hefur yfirleitt í för með sér rekstrarsparnað þar sem innkaup eru einfölduð og gerð skilvirkari. Sem stærsta iðnaðargrein á Íslandi hefur ferðaþjónustan stóru hlutverki að gegna þegar kemur að því að draga úr umhverfisáhrifum atvinnulífsins.

Viðmiðin

Kröfur Svansins í þessum þjónustuflokki skiptast upp í tvö ólík viðmið, annars vegar viðmið fyrir Hótel og aðra gististaði og hins vegar viðmið fyrir Veitingarekstur og ráðstefnurými án gistingar. Hægt er að sækja viðmiðaskjölin hér fyrir neðan.

Viðmiðin byggjast á tilteknum fjölda skyldukrafna ásamt stigakerfi þar sem þarf að ná lágmarksfjölda stiga til að hljóta vottunina. Ef fyrirtækið stenst allar skyldukröfur, þ.m.t. lágmarks fjölda stiga getur það hlotið Svansvottun. Í viðmiðum Svansins fyrir gististaði (hótel, hostel, Farfuglaheimli o.s.frv.), veitingarekstur og ráðstefnurými, með eða án gistingar, er áhersla lögð á eftirfarandi atriði:

  • Umhverfisstjórnun – eftirfylgni og skýr ábyrgðarhlutverk
  • Sjálfbær matvæli – lægra kolefnisspor ásamt lífrænt vottuðum mat og drykk
  • Lágmarka orkunotkun og innleiða orkusparandi aðgerðir
  • Lágmarka magn blandaðs úrgangs og gera flokkun aðgengilega
  • Lágmarka vatnsnotkun og innleiða vatnssparandi aðgerðir
  • Kaupa inn umhverfisvottuð efni og lágmarka efnanotkun
  • Mæla matarsóun og grípa til aðgerða til að draga úr matarsóun
  • Takmarka notkun á einnota vörum og lágmarka umbúðanotkun

Hvað er hægt að votta

  • Hótel, gisti- og farfuglaheimili
  • Veitingastaði, kaffihús og mötuneyti
  • Ráðstefnurými með og án gistingar
  • Samsettan rekstur

Gjaldskrá

Kostnaður við Svaninn skiptist í umsóknargjald sem greitt er þegar sótt er um og árgjald sem er greitt árlega eftir að fyrirtækið fær vottun.

Umsóknargjald:

  • 215.000 fyrir lítil fyrirtæki (minna en 10 ársverk og heildarveltu undir 200. m.kr.)
  • 430.000 fyrir stærri fyrirtæki

Árgjald:

  • 0,15% af árlegri veltu þjónustu
  • Þó að lágmarki 55.000 og að hámarki 990.000

Tengiliður

Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir

Sérfræðingur

ester.alda.hrafnhildar.bragadottir@umhverfisstofnun.is

591 2000

Reynslusögur

Arndís Soffía Sigurðardóttir
Framkvæmdastjóri – Hótel Fljótshlíð

Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar vöru/þjónustu?

Við höfðum lengi unnið að umhverfismálum í okkar rekstri áður en við ákváðum að ganga í þá vinnu að fá vottun fyrir starfinu. Við veltum því mikið fyrir okkur hvaða vottunaraðila við ættum að leita til. Niðurstaðan var á endanum sú að við treystum Svansvottun best, við þekktum merkið best og síðast en ekki síst þá þótti okkur gríðarlega mikilvægt að vinna okkar væri vottuð að hlutlausum þriðja aðila, Umhverfisstofnun, sem væri opinber vottunaraðili.

Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?

Ávinningurinn fyrir umhverfið er augljós eftir að við höfum gengið í gegnum vottunarferlið. Minni sápa fer út í umhverfið, minna sorp stafar frá fyrirækinu og dregið hefur verið úr sóun á vatni og orku. Ávinningurinn fyrir okkur er stjórntæki sem nýtist gríðarlega vel í rekstrinum og hefur virkað sem gæðastýring líka. Svansvottað fyrirtæki er nefnilega líka vottun um að innri starfsemi fyrirtækisins er í lagi sem segir mikið um gæðamál.

Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?

Við þann sem ákveður að taka upp svansvottun í sínu fyrirtæki segjun við, til hamingju með ákvörðunina! Þetta mun veita rekstraraðilum betri yfirsýn, draga úr sóun, kalla á stefnumótun til framtíðar og vernda umhverfið fyrir óþarfa áhrifum af rekstri fyrirtækisins.

Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?

Svansvottunin mun gegna mikilvægara og mikilvægara hlutverki í framtíðinni núna þegar umhverfismál eru loksins komin á kortið. Um leið og það er fagnaðarefni að umhverfismál fá aukna athygli þá er hætta á að svokallaður grænþvottur verði stundaður af fyrirækjum sem auglýsa umhverfisvænar vörur og/eða þjónustu án þess að standa undir nafni. Vottun eins og Norræni Svanurinn mun því gegna lykilhlutverki í því að tryggja að neytendur geti verið vissir um að þegar þeir velja sér vörur og þjónustu þá sé um raunverulega um að ræða betri kost fyrir umhverfið. Að þessu sögðu er líka mikilvægt að vottunarferlið þróist þannig að þeir sem eru raunverulega að vinna að umhverfismálum í sínum fyrirækjarekstri gefist ekki upp á ferlinu vegna skrifræðis eða kostnaðar vegna vinnu ráðgjafa eða árgjalda. Þeir sem vinna gott starf í þágu umhverfisins og uppfylla kröfur Norræna Svansins ættu að geta fengið vottun fyrir það starf án tillits til fjárhagslegs bolmagns til að ganga í gegnum ferlið.

Marta Rut Pálsdóttir
Rekstrarstjóri – Kaffitár

Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar vöru/þjónustu?

Það að vera umhverfisvæn eða þannig þenkjandi er eiginlega inngróið í menningu Kaffitárs, frá byrjun höfum við t.d flokkað rusl, allar flöskur og dósir sem falla frá á kaffihúsunum fara til Þroskahjálpar, við styrkjum á hverju ári fjölda samtaka sem tengjast fólki með þroska hömlun, sinna starfsemi barna og kvenna, Kaffitár hefur einnig verið stuðningsaðili lista- og menningarviðburða, við styrkjum ýmsa atburði sem tengjast menntun og nýsköpun og við styrkjum menntamál og heilbrigðismál í kaffiræktunarlöndum. Auk þess kaupum við 80% af kaffinu okkar beint af bónda, sem ásamt því að tryggja okkur gæði, tryggir bóndanum hærra verð og að meira í hans vasa.

Svansvottunin var einhvern vegin eðlilegt áframhald á því starfi sem við vorum að vinna og riðum við á vaðið árið 2010 að fá vottunina, en kaffihús okkar voru voru fyrst hér á landi til að fá vottun umhverfismerkis Svansins. Vottunin hjálpar og hvetur okkur að vinna áfram með umhverfismál.

Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?

Svanurinn er nokkuð vel þekkt umhverfismerki á Íslandi og sífellt fleiri fyrirtæki að bætast í hópinn, það er verðmæti fólgið í því að merkja fyrirtækið með þessu umhverfismerki.   Svansmerkið er trygging fyrir því  að umhverfisstarf fyrirtækisins sé í föstum skorðum, bæði gagnvart viðskiptavinum og starfsmönnum.

Notkun Svansmerkisins auðveldar markaðsetningu á umhverfisstarfi fyrirtækisins bæði innri og ytri, skapar samkeppnisforskot og styrkir jákvæða ímynd Kaffitárs.

Viðmið Svansins krefjast þess að notkun einnota umbúða sé í lágmarki,og flokkað sé ítarlega t.a.m. lífrænt, pappi,plast, ál og önnur spilliefni og að notuð séu umhverfismerkt hreinsiefni  (og skömmtunarleiðbeiningar til að lágmarka notkun efnanna).  Einnig að fyrirtækið setji sér markmið til að ná betri og meiri árangri ár hvert í ofan töldu og einnig orku og vatnsnotkun.  Það tryggir að neikvæðum umhverfisáhrifum af rekstri kaffihúsanna er haldið í lágmarki.

Svanurinn krefst þess að haldið sé utan um öll gögn því til sönnunar að markmiðum hafi verið náð og viðmið uppfyllt, þ.e. mælanlegur árangur.  Þ.a.l. e mikið aðhald og eftirfylgni í því að viðmiðum sé fylgt og að það sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða og viðmiða Svansins við flestar ákvarðanir.

Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?

Innleiðingarferlið tók u.þ.b. 2 mánuði hjá okkur á sínum tíma, En ég mæli alveg hiklaust með þeirri vinnu til að fá vottunina, því fólk er alltaf að verða meðvitaðra um svaninn og almennt um umhverfið sitt, og sífellt fleiri kjósa að finna vörur og fyrirtæki sem hafa svansvottunina. Við erum líka mikið meðvitaðri um umhverfisáhrif alls sem við gerum og hefur það áhrif á ákvarðanir varðandi reksturinn á fyrirtækinu, og komandi kynslóðir eru mjög meðvitaðar um neikvæð umhverfisáhrif fyrirtækja.

Það að fylgja eftir viðmiðum Svansins á kaffihúsum krefst ekki neins aukalega af tíma starfsmanna,.  Aðal vinnan er í reglulegum skráningum og utanumhaldi á gögnum og krefst þess að nokkrar deildir í fyrirtækinu taki þátt í þeirri vinnu.

Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?

Ég vonast til að fleiri fyrirtæki í okkar geira sjái hag sinn í að fá vottun og að kröfunar sem gerðar eru í vottuninni verið „norm“ í framtíðinni. Neytendur gera alltaf meiri kröfur til fyrirtækja að sinna samfélagslegum skyldum sínum eins og í umhverfismálum og er það af hinu góða.

Sigríður Ólafsdóttir
Rekstrarstjóri Farfugla ses / HI Iceland

Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar þjónustu?

Með því að sækjast eftir Svansvottun á rekstri nýs Farfuglaheimilis í Laugardal fyrir 20 árum vildum við tryggja trúverðugleika og ramma utanum stöðugar umbætur á sviði umhverfismála. Í okkar huga gaf vottunin einnig samkeppnisforskot og auðveldaði markaðssetningu.

Við byrjuðum á að byggja upp gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi fyrir reksturinn en vottun þriðja aðila var í okkar huga skilyrði fyrir því að vel tækist til. Svanurinn var lang öflugasta umhverfismerkið í heiminum og um leið raunhæfur kostur fyrir okkur.

Á þeim tíma voru nýkomin út viðmið Svansins í flokki hótela og farfuglaheimila. Þau náðu yfir umhverfisþátt okkar og rímuðu við stefnu Farfugla og sérstöðu okkar. Það lá því beinast við að sækjast eftir Svansvottun, fyrst allra farfuglaheimila á Norðurlöndunum.
Það skipti okkur líka máli að Svanurinn er norrænt merki, við getum komið okkar sjónarmiðum að þegar kröfurnar eru uppfærðar og hertar.

Farfuglar byggja á gömlum grunni sem félagasamtök þar sem sjálfbærnihugsjóninni er ætlað að skína í gegnum allt starf. Umhverfisstefna Farfugla frá því 1999 er meðal fyrstu stefna sem sett var fram af fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu.
Það styrkir okkur í slíkri vinnu að vera hluti af alþjóðasamtökum Hostelling International og sem dæmi höfum við lengi átt samleið með systursamtökum okkar í Nýja Sjálandi í stefnumótun og áherslum í umhverfisstarfi.  Okkur hefur einnig fundist við bera ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi, að styðja við nýsköpun og halda við góðum orðstír.

Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?

Það er okkar reynsla að ferlið styður við hagkvæmni í viðkvæmu rekstrarumhverfi.  Svansvottunin gefur okkur nauðsynlegt aðhald en um leið svigrúm til að vera í stöðugu umbótaferli og áhugaverðum verkefnum. Við höfum náð til nýrra markaða og öll kynning á okkar sérstöðu er gerð auðveldari.

Með því að Svansvotta Farfuglaheimilin mörkuðum við okkur sérstöðu innan íslenskrar ferðaþjónustu; ekki einungis meðal ferðamanna og samstarfsfólks heldur einnig þegar kom að því að mennta og laða til sín öflugt starfsfólk sem deilir hugsjónum og vill láta gott af sér leiða.

Við erum stolt af því að styðja við nýsköpunarstarf á sviði umhverfismála. Við lítum svo á að það sé hlutverk okkar að deila þekkingu og reynslu og hafa áhrif á gestina okkar til góðs, margir þeirra eru hér í fyrsta sinn að heiman í för með fjölskyldu eða hópnum sínum.

Hjá Umhverfisstofnun höfum við fengið hvatningu og sérfræðiráðgjöf til að vinna eftir okkar leiðum. Slíkt réttlætti í okkar huga kostnaðinn við vottunina. Reynslan af samstarfi við önnur Svansvottuð fyrirtæki hefur veitt innblástur.

Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?

Ég geri það sannarlega og mæli með að gefinn sé góður tími í verkefnið í byrjun og umbótaferlið sem það hrindir af stað. Við sjáum ekki eftir þeim tíma því hann styrkti þátttöku og skilning lykilfólks, áhuga starfsfólks og ýmisskonar umbætur sem skiluðu sér í marktækri aukningu á ánægju gesta.

Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?

Þegar við opnuðum Loft, nýja Farfuglaheimilið okkar í Bankastræti árið 2013, höfðum við unnið eftir viðmiðum Svansins við hönnun og byggingu. Í raun kom aldrei annað til greina en að sækjast eftir Svansvottun á reksturinn. Nú getum við því státað af Svansvottun á alla okkar starfsemi sem auðveldar einnig allt kynningar- og markaðsstarf.