Hótel, veitingarekstur og ráðstefnurými
Svansvottun er markviss leið til að tryggja árangur í umhverfismálum og skapa sér sérstöðu á samkeppnismarkaði. Sú ímyndarsköpun sem fylgir Svansvottun getur bæði laðað að sér nýjan kúnnahóp sem og starfsfólk sem hefur metnað fyrir umhverfismálum.
Svanurinn eykur skilning á umhverfisþáttum rekstursins sem hefur yfirleitt í för með sér rekstrarsparnað þar sem innkaup eru einfölduð og gerð skilvirkari.
Sem stærsta iðnaðargrein á Íslandi hefur ferðaþjónustan stóru hlutverki að gegna þegar kemur að því að draga úr umhverfisáhrifum atvinnulífsins.
Viðmiðin
Kröfur Svansins í þessum þjónustuflokki skiptast upp í tvö ólík viðmið, annars vegar viðmið fyrir Hótel og aðra gististaði og hins vegar viðmið fyrir Veitingarekstur og ráðstefnurými án gistingar. Hægt er að sækja viðmiðaskjölin hér fyrir neðan.
Viðmiðin byggjast á tilteknum fjölda skyldukrafna og stigakrafna þar sem þarf að ná lágmarksfjölda stiga til að hljóta vottunina. Í viðmiðum Svansins fyrir gististaði (hótel, farfuglaheimli o.s.frv.), veitingarekstur og ráðstefnurými, með eða án gistingar, er áhersla lögð á eftirfarandi atriði:
- Umhverfisstjórnun – eftirfylgni og skýr ábyrgðarhlutverk
- Sjálfbær matvæli – lægra kolefnisspor ásamt lífrænt vottuðum mat og drykk
- Lágmarka orkunotkun og innleiða orkusparandi aðgerðir
- Lágmarka magn blandaðs úrgangs og gera flokkun aðgengilega
- Lágmarka vatnsnotkun og innleiða vatnssparandi aðgerðir
- Kaupa inn umhverfisvottuð efni og lágmarka efnanotkun
- Mæla matarsóun og grípa til aðgerða til að draga úr matarsóun
- Takmarka notkun á einnota vörum og lágmarka umbúðanotkun
Hvað er hægt að votta
- Hótel, gisti- og farfuglaheimili
- Veitingastaði, kaffihús og mötuneyti
- Ráðstefnurými með og án gistingar
- Samsettan rekstur
Gjaldskrá
Kostnaður við Svaninn skiptist í umsóknargjald sem greitt er þegar sótt er um og árgjald sem er greitt árlega eftir að fyrirtækið fær vottun.
Umsóknargjald:
- 215.000 ISK fyrir lítil fyrirtæki (minna en 10 ársverk og heildarveltu undir 200. m.kr.)
- 430.000 ISK fyrir stærri fyrirtæki
Árgjald:
- 0,15% af árlegri veltu þjónustu
- Þó að lágmarki 55.000 ISK og að hámarki 990.000 ISK
Ítarefni
Tengiliður
Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir
Sérfræðingur
ester.alda.hrafnhildar.bragadottir@umhverfisstofnun.is
591 2000
Reynslusögur
Arndís Soffía Sigurðardóttir
Framkvæmdastjóri – Hótel Fljótshlíð
Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar vöru/þjónustu?
Við höfðum lengi unnið að umhverfismálum í okkar rekstri áður en við ákváðum að ganga í þá vinnu að fá vottun fyrir starfinu. Við veltum því mikið fyrir okkur hvaða vottunaraðila við ættum að leita til. Niðurstaðan var á endanum sú að við treystum Svansvottun best, við þekktum merkið best og síðast en ekki síst þá þótti okkur gríðarlega mikilvægt að vinna okkar væri vottuð að hlutlausum þriðja aðila, Umhverfisstofnun, sem væri opinber vottunaraðili.
Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?
Ávinningurinn fyrir umhverfið er augljós eftir að við höfum gengið í gegnum vottunarferlið. Minni sápa fer út í umhverfið, minna sorp stafar frá fyrirækinu og dregið hefur verið úr sóun á vatni og orku. Ávinningurinn fyrir okkur er stjórntæki sem nýtist gríðarlega vel í rekstrinum og hefur virkað sem gæðastýring líka. Svansvottað fyrirtæki er nefnilega líka vottun um að innri starfsemi fyrirtækisins er í lagi sem segir mikið um gæðamál.
Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?
Við þann sem ákveður að taka upp svansvottun í sínu fyrirtæki segjun við, til hamingju með ákvörðunina! Þetta mun veita rekstraraðilum betri yfirsýn, draga úr sóun, kalla á stefnumótun til framtíðar og vernda umhverfið fyrir óþarfa áhrifum af rekstri fyrirtækisins.
Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?
Svansvottunin mun gegna mikilvægara og mikilvægara hlutverki í framtíðinni núna þegar umhverfismál eru loksins komin á kortið. Um leið og það er fagnaðarefni að umhverfismál fá aukna athygli þá er hætta á að svokallaður grænþvottur verði stundaður af fyrirækjum sem auglýsa umhverfisvænar vörur og/eða þjónustu án þess að standa undir nafni. Vottun eins og Norræni Svanurinn mun því gegna lykilhlutverki í því að tryggja að neytendur geti verið vissir um að þegar þeir velja sér vörur og þjónustu þá sé um raunverulega um að ræða betri kost fyrir umhverfið. Að þessu sögðu er líka mikilvægt að vottunarferlið þróist þannig að þeir sem eru raunverulega að vinna að umhverfismálum í sínum fyrirækjarekstri gefist ekki upp á ferlinu vegna skrifræðis eða kostnaðar vegna vinnu ráðgjafa eða árgjalda. Þeir sem vinna gott starf í þágu umhverfisins og uppfylla kröfur Norræna Svansins ættu að geta fengið vottun fyrir það starf án tillits til fjárhagslegs bolmagns til að ganga í gegnum ferlið.